Tannlæknar í áfalli yfir bágri tannheilsu aldraðra

Mynd með færslu
 Mynd: Rudi fargo/unsplash
Rannsókn bendir til þess að meginþorri aldraðra á hjúkrunarheimilum þjáist vegna ómeðhöndlaðra tannvandamála. Aðgengi að tannlæknaþjónustu er slæmt þrátt fyrir fulla greiðsluþátttöku hins opinbera og starfsfólk heimilanna skortir þekkingu til að sinna tannhirðu. Vandamálið á að óbreyttu bara eftir að stækka. Forstjóri Hrafnistu segir hjúkrunarheimili nauðsynlega þurfa stuðning sérfræðinga. Heimilin eru flest meðvituð um vandann og lausnir eru til, en þær kosta.

Ljótar sögur

Sögurnar sem tannlæknar segja af tannheilsu aldraðra á hjúkrunarheimilum eru ekki fallegar. 

„Þeir tannlæknar sem hafa farið inn á hjúkrunarheimili hafa oft komið til baka í hálfgerðu áfalli yfir að hafa séð fólk sem hefur bara virkilega þurft á meðferð að halda,“ segir Eva Guðrún Sveinsdóttir, tannlæknir. 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Eva Guðrún Sveinsdóttir

Fagfólk þekkir mörg dæmi um fólk sem flutti á hjúkrunarheimili með góðar tennur en þegar þangað var komið hrundi tannheilsan.

Hólmfríður Guðmundsdóttir, tannlæknir hjá Embætti landlæknis, segir að tennurnar skemmist oft hratt þegar fólk hættir að geta hugsað um þær sjálft. „Því miður held ég að fólk sé verkjað, það er sveppasýking í gangi og mikið skemmdar tennur.“

Sífellt stærri hluti aldraðra heldur sínum tönnum, er með brýr eða fast tanngervi, og það kallar á mun flóknari og sérhæfðari þjónustu en áður. 

Sá sömu vandamálin aftur og aftur

Aðalheiður Svana Sigurðardóttir, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum tannlæknadeild Háskóla Íslands, varð árum saman vör við sömu vandamálin hjá íbúum hjúkrunarheimila sem komu á stofuna til hennar. Þetta varð kveikjan að því að hún ákvað að taka tannheilsu þessa hóps fyrir í doktorsrannsókn sinni. „Okkur vantaði alveg rannsóknir á þessu sviði.“

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir

Meirihlutinn í þörf fyrir meðferð

Aðalheiður gerði árin 2014 og 2018 klíníska rannsókn á íbúum tveggja hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu. Einu rannsóknina sem gerð hefur verið á tannheilsu aldraðra á stofnunum hérlendis, hún hefur enn ekki verið birt.

Í ljós kom að tannheilsa aldraðra var skert, sérstaklega þeirra sem höfðu tapað tönnum. Þá var mikil meðferðarþörf en tæplega 80% þeirra sem Aðalheiður skoðaði hefðu þurft að fara til tannlæknis.

„Og annað hvort láta rífa tennur eða laga tennur eða skoða með röntgenmyndum því það var ekki hægt að staðfesta hvað væri raunverulega að.“

Slæm staða hjá frískasta fólkinu - verri hjá heilabiluðum

Rannsókn Aðalheiðar fegrar stöðuna líklega því hún náði eingöngu til frískasta fólksins á heimilunum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tæplega 80% frískasta fólksins hefði þurft meðhöndlun á tannlæknastofu.

„Það voru skilyrði fyrir þátttöku í rannsókninni að þú þurftir að koma til okkar í skoðunina og þú þurftir að vera fær um að svara spurningalista, það geta ekkert allir,“ segir hún. 

Rannsóknin tók þannig ekki til fólks með heilabilun, sem er meginþorri íbúa heimilanna, erlendar rannsóknir hafa sýnt að hjá þeim hópi er tannheilsan lang verst og erfitt fyrir starfsfólk að sinna henni, fólk vill ekki opna munninn, bítur jafnvel frá sér eða slær.

„Þetta er klárlega veikleiki hjá okkur“

María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistuheimilanna, er meðvituð um vandann og hversu neikvæð áhrif það hefur á heilsu fólks og líðan að vera með verki og bólgur í munni.

„Bragðskynið breytist og svo margt annað, þetta hefur áhrif á næringarstatus, sem hefur þá áhrif á hreyfingu og hvernig sár gróa. Þetta getur mögulega leitt til versnandi heilabilunar og það koma fram hegðunarraskanir, vegna einhvers í munninum, sem við getum hreinlega lagað.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistuheimilanna.

Heimilið veldur verkefninu ekki nógu vel. „Þetta er klárlega veikleiki hjá okkur, það er þannig. Við sjáum það að við þurfum að fá sérfræðiaðstoð um tannheilsu inn á hjúkrunarheimilin. Fræðsla um hreinsun tanna er til staðar hjá okkur og við kennum starfsfólki að hreinsa tennur en þetta er miklu flóknara en svo. Þetta er ekki lengur þannig að við getum haldið fræðslu um að svona eigi að gera þetta, þetta er einstaklingsmiðað og við þurfum að horfa á það þannig.“

Skortir þjálfun og þekkingu

Samhliða rannsókninni á tannheilsu aldraðra á stofnunum, safnaði Aðalheiður gögnum frá starfsfólki heimilanna, spurði það hvort það hefði fengið einhverja þjálfun í að tannbursta íbúa.

Í ljós kom að á því var mikill misbrestur. Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar höfðu kannski fengið einhverja fræðslu í sínu námi, en ófaglærða fólkið, sem einkum sinnir þessu verkefni, hafði fengið litla þjálfun.

Starfsfólki finnst auðveldara að þrífa lausar tennur, það getur farið með þær afsíðis og burstað en það er erfiðara að fá fólk til að gapa á meðan rótfastar tennur eru burstaðar. 

Að finna sífellt til í munninum markar allt lífið, fólk á erfiðara með að matast og hefur minni ánægju af því og svo geta bólgur og sýkingar í munni valdið lífshættulegri ásvelgingarlungnabólgu.

Rannsóknin tók einungis til íslensks starfsfólks heimilanna og tæpur þriðjungur þess hafði horft á fræðslumyndband Landlæknisembættisins um munnhirðu aldraðra.

„Síðan eru líka vandamál sem við vitum að blasa við starfsfólki, þessi þjónusta er að verða mjög flókin. Fólk heldur tönnunum sínum lengur, er með krónur og brýr sem þarfnast jafnvel sérstakra þrifa og það er kannski ekkert á hendi ófaglærðs starfsmanns að takast á við það starf heldur þarf hann stuðning,“ segir Aðalheiður. 

16 sekúndur, einu sinni á dag

Álag og undirmönnun er þekkt vandamál á hjúkrunarheimilum og oft þarf starfsfólk að hafa hraðar hendur. Rannsóknir sýna að tannburstun er sá liður í umönnun sem fólk sleppir einna oftast ef tíminn er knappur. Og þegar tennur eru burstaðar segir Aðalheiður vísbendingar um að það sé gert með hraði.

Í stað þess að bursta tennurnar í 2 mínútur tvisvar á dag, sem er hinn gullni staðall að mati tannlækna, sé það yfirleitt bara gert einu sinni og burstað í 16 sekúndur í senn. „Við vitum það að 16 sekúndur duga ekki til að hreinsa munninn og allra síst þegar maður hreinsar hann hjá öðrum,“ segir Aðalheiður. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

 

Hreinsa með vatni

Við þetta bætist svo að ólíkt til dæmis grisjum og bleium, sem hjúkrunarheimilin skaffa, sé það á ábyrgð íbúa eða aðstandenda þeirra að það sé til tannkrem, tannbursti og önnur áhöld eða efni til að hreinsa tennurnar.

„Í þessari rannsókn á meðal starfsfólks var sérstaklega spurt um hvaða efni fólk notaði til að hreinsa tennur íbúa, þá var svarið vatn. Það er lítið forvarnargildi þegar þú ert með eigin tennur á gamalsaldri og þarft að láta bursta þig, þá er ekki mikið forvarnargildi í vatninu einu og sér, þú þarft að nota flúortannkrem.“

Í rannsókn sinni segist Aðalheiður alltaf hafa séð tannbursta inni á baðherbergi hjá fólki, í misjöfnu ástandi þó, en hún sá hvergi hjálpartæki eða sérútbúna bursta, sem henta hinum aldraða eða starfsfólkinu betur.

Aðstandendur viti ekki alltaf hvaða áhöld henti best og hafi ekki endilega rænu á að útvega lyfseðilsskylt flúortannkrem, sem Aðalheiður telur stundum geta hjálpað, svo dæmi séu nefnd. 

Háð áhuga stjórnenda á hverju heimili

Í kröfulýsingu fyrir hjúkrunarheimili er ákvæði um að tryggja skuli aðgang hins aldraða að tannlæknaþjónustu og mælt með því að heimilin setji sér sín eigin viðmið. Aðalheiður segir þessi viðmið óskýr, jafnvel mismunandi milli hæða á sama heimili.

„Þegar ég tala við þá sem stjórna getur það jafnvel farið eftir því hvað viðkomandi finnst tannheilsa skipta miklu máli, hversu mikil áhersla er lögð á hana í þjónustunni.“

Hún segir að best væri að hafa ákveðna staðla eða lágmarksviðmið og ítrekar að starfsfólk þurfi stuðning því verkefnið sé síður en svo létt. „Það mætti til dæmis byrja á að sameinast um að búa til verklag, prenta út spjald sem væri hægt að plasta og setja inn hjá hinum aldraða.“

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia

 

Á spjaldinu væru þá leiðbeiningar um einstaklingsbundnar þarfir hvers og eins, að þessi sé með tannplanta og þurfi sérstök þrif og útskýrt í hverju þau felist. Á spjaldinu mætti líka taka fram hversu oft viðkomandi þurfi eftirlit tannlæknis. 

Horfir til Svíþjóðar 

Aðalheiður segir að tækifæri geti legið í aukinni þverfaglegri samvinnu milli tannlækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og ófaglærðs starfsfólks í umönnun. „Við ættum að taka okkur aðrar þjóðir til fyrirmyndar, Svíþjóð hefur til dæmis sett í lög að á hverri öldrunarstofnun þurfi að vera starfsmaður sem er þjálfaður í tannheilbrigðisþjónustu, það skiptir þá engu hvaða starfstitil viðkomandi hefur hann þarf bara að vera með þessa lágmarksþjálfun sem felst þá í menntun.“

Tæpur helmingur ekki farið til tannlæknis í yfir fimm ár

Þrátt fyrir að fólk sé komið inn á stofnun, þarf það ekki síður á reglulegri þjónustu tannlækna að halda. Það virðist misbrestur á því að aldraðir fari til tannlæknis þrátt fyrir að almenn tannlæknaþjónusta við aldraða á stofnunum eigi að vera niðurgreidd að fullu. 

Meirihluti þátttakenda í rannsókn Aðalheiðar, 60%, hafði farið til tannlæknis á síðustu fimm árum en hjá 40% voru meira en fimm ár liðin frá síðustu tannlæknisheimsókn. 

Vegna hrumleika á fólk oft erfitt með að sækja þjónustuna. Það þarf því kannski starfsmann með sér, það þarf að panta bíl og plana með fyrirvara. 

Tími gervitannanna að líða undir lok

Góðu fréttirnar eru þær að fólk heldur tönnunum sínum lengur, fagfólk segir tíma gervitannanna smám saman vera að líða undir lok.

Tölur Landlæknisembættisins sýna að árið 2000 var einn af hverjum fimm á aldrinum 65-79 ára enn með eigin tennur, árið 2017 átti það við um helminginn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Landlæknisembættið

„Þeir sem hafa misst tennur eru oft með laus tann- og munngervi, þegar þú tyggur vill tanngervið ganga til, meiða og særa þannig að það fólk kvartar meira undan vanlíðan, að geta ekki tuggið, finna ekki bragð og alls konar sem okkur sem erum með tennur finnst sjálfsagt.“

Endingin á sex ára tönnunum hefur snarbatnað, tannlausum fækkar ört og það hefur í för með sér aukin lífsgæði - en bara ef tönnunum er sinnt. En hvað er til ráða? 

Tilraunaverkefni á ís í heimsfaraldri

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Hrafnista Laugarási.

Vorið 2019 fór Hrafnista af stað með tilraunaverkefni á tíu manna deild á Hrafnistuheimilinu Ísafold í Garðabæ. Tannlæknir kom einn dag í mánuði og skoðaði tennur íbúa. Hann gat hreinsað tennur, gefið lyf, fjarlægt lausar tennur og tekið röntgenmynd við rúmstokkinn, með ferðatæki. Þá ráðlagði hann starfsfólki um meðferð og munnhirðu hvers og eins og mat hvort fólkið þyrfti frekari meðferð á tannlæknastofu. Starfsfólki var létt að vita að munnhirðunni væri betur sinnt, en svo kom COVID. 

„Þetta er bara verkefni sem við þurfum að taka upp aftur, núna eftir heimsfaraldur og halda áfram með,“ segir María Fjóla.  

Það þarf að vega og meta hversu mikið skuli gera. Fólk lifir að meðaltali tæp tvö ár frá því það flytur á Hrafnistu. Það er ekki endilega gengið langt í dýrum tannviðgerðum, aðalmarkmiðið er að koma í veg fyrir vanlíðan. 

Á Hrafnistu í Reykjanesbæ hefur verkefni af þessu tagi verið við lýði í nokkur ár. Ef áhyggjur vakna, fólk fer til dæmis að borða minna, er tannlæknir fenginn til að líta á það. 

Fleiri heimili hafa ráðist í sambærileg verkefni, fengið fagfólk til að koma og meta þarfir heimilismanna og leiðbeina starfsfólki. Slíkt verkefni var í startholunum á Grund skömmu fyrir faraldur en var sett á bið vegna hans. 

Tannlæknastofur hafi strandað á áhugaleysi tannlækna

Aldraðir á hjúkrunarheimilum eiga oft erfitt með að fara til tannlæknis og tannlæknastofur eru ekki endilega útbúnar til að taka á móti þeim. Það getur reynst tannlæknum erfitt að fá hinn aldraða til að vinna með sér og verkin taka kannski lengri tíma en hjá öðrum. Þá skiptir dagsformið miklu. 

„Einstaklingur sem er kominn með heilabilun gæti þurft að fara nokkrum sinnum til tannlæknis þangað til það tekst að fá að skoða munninn og gera eitthvað,“ segir María.  

Lausnin getur þá verið að svæfa viðkomandi. 

Fyrir allmörgum árum voru reknar tannlæknastofur á tveimur Hrafnistuheimilanna, í Hafnarfirði og á Laugarási. María segir stofurnar hafa gefist mjög vel og myndi vilja endurvekja þær. 

„Það strandaði á áhuga myndi ég segja, og mögulega getu, en ég er svo bjartsýn að eðlisfari að ég trúi því að þarna er fólk sem hefur áhuga, ég bara þarf að finna það.“

Þarna á María við áhuga tannlæknanna sjálfra. Fleiri hafa nefnt þetta áhugaleysi tannlækna við Spegilinn. 
 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Áhöld tannlæknis

Eini öldrunartannlæknirinn

Helga Ágústsdóttir, öldrunartannlæknir og sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu, er í hlutastarfi við að sinna sjúklingum á tannlæknastofu á Landakotsspítala. Hún er eini starfandi sérfræðingurinn í öldrunartannlækningum á landinu og vonar að fleiri fari að leggja fagið fyrir sig. Ekki sé vanþörf á nú þegar þjóðin eldist hratt. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Landakotsspítali.

Vill ekki bogra yfir sjúkrarúmum

Helga telur að helst þyrfti að vera aðstaða fyrir tannlækna inni á hjúkrunarheimilum; stóll, góð lýsing og grunntækjabúnaður. Hún spyr sig hvort tannlæknar og fótaaðgerðafræðingar gætu jafnvel samnýtt aðstöðu. 

„Þú þarft að hafa ýmis tæki og tól til að geta gert góðar tannlækningar, það er ekki bara hægt að bogra yfir sjúkrarúmi með tangir og draga úr tennur, það er ekki það eina sem við viljum gera.“

Hún bendir á að kostnaður eigi ekki lengur að hindra íbúa hjúkrunarheimila í því að fara til tannlæknis. Almenn þjónusta sé niðurgreidd að fullu.  

„Það er ekki lengur afsökun, eins og hjúkrunarheimili voru stundum að segja, aðstandendur vilja ekki borga þetta og við viljum ekki borga þetta. Þetta er þröskuldur sem er farinn og kannski veit fólk ekki nógu vel af því.“

Fleiri en aldraðir og  hrumir komast ekki til tannlæknis

Helga hefur lagt til að ríkið setji upp sérstaka tannlæknastofu fyrir færniskerta einstaklinga; aldraða, sjúklinga og fólk með fötlun sem tannlæknar geta nú ekki tekið á móti. 

„Það þarf lyftara kannski til að setja fólk í stólinn, það þarf gott pláss og víðast hvar á tannlæknastofum er verið að spara plássið og ekki gert ráð fyrir því að hægt sé að keyra sjúkrarúm og lyftara og alls konar græjur þar inn.“

Hún hefur reiknað út að stofnkostnaður við slíka stofu væri tæplega 200 milljónir og annað eins þyrfti í rekstrarkostnað árlega. Þetta sé því einungis á færi ríkisins, ekki tannlækna úti í bæ. 

Bjarga tannfræðingar málunum? 

Mynd með færslu
 Mynd: Jon Tyson/Unsplash

Kannski eru tannlæknar ekki aðallausnin. Allir sem Spegillinn hefur rætt við um þessi mál hafa nefnilega nefnt aðra stétt sem þeir telja lykilinn að lausn vandans, tannfræðinga. Að fá þá til starfa inni á stofnunum.

Vandinn er sá að tannfræðingastéttin er fámenn, aðeins 15 í félagi tannfræðinga og allir menntaðir í útlöndum. Fyrir hrun var vinna við að setja á fót nám í tannfræði við Háskóla Íslands langt komin. 

„Það þarf bara að endurvekja það, bara spurning um hver ætlar í það,“ segir Kristrún Sigurðardóttir, tannfræðingur og kennari við Fjölbrautaskólann í Ármúla. Hún hefur um nokkurra ára skeið farið með nemendum sínum inn á tvö hjúkrunarheimili, frætt starfsfólk og íbúa um mikilvægi munnhirðu. 

Kristrún efast ekki um að tannfræðingar væru til í að ráða sig inn á hjúkrunarheimilin, sinna flókinni umhirðu og fræða starfsfólk. 

„Tannfræðimenntunin byggir upp á forvörnum, svo þeir sem hafa áhuga á að læra tannfræði eru þeir sem hafa áhuga á að vinna þessi störf.“

Raunar hafi tannfræðingur starfað á Droplaugarstöðum um nokkurt skeið og gert frábæra hluti.

„Svo var það skorið niður um leið og fór að þrengja að, lykilhugtakið hér er vöntun á peningum; til að fjármagna stöður inni á þessum stofnunum, fjármagna nám og rannsóknir líka.“ 
 

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg
Sumargleði á Droplaugarstöðum.

Súkkulaðitrix og peningamál

María á Hrafnistu segir fólk oft halda fast í að fá að bursta tennurnar sjálft. Það geti tekið starfsfólk langan tíma að sannfæra íbúa um að leyfa sér að bursta og sömuleiðis geti verið tímafrekt að hreinsa tennurnar, bæði vegna sársauka hins aldraða og flókinna íhluta.

Þekkt trix þegar íbúi vill ekki láta bursta er að byrja að tannbursta íbúann með súkkulaði til að vinna traust hans, færa sig svo yfir í tannkrem með tyggjókúlu bragði, og loks í hefðbundið tannkrem. Þá er stundum hægt að sótthreinsa munninn með sveppa- og bakteríudrepandi efnum ef fólk harðneitar að leyfa starfsfólki að bursta. 

Að hennar mati eru umönnunarklukkustundir á íbúa of fáar. Ef starfsfólk ver 20 mínútum í þetta, tvisvar á dag, er hætt við að það bitni á öðrum þáttum í umönnuninni. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

 

„Þetta er náttúrulega samtal sem ég myndi gjarnan vilja eiga við heilbrigðisráðuneytið og Embætti landlæknis. Nú eru þjónustusamningar hjúkrunarheimila lausir í febrúar 2022 og við þurfum að geta komist niður á þá sátt að sú þjónusta sem einstaklingurinn þarf, að við getum veitt hana, að tíminn okkar sé ekki það knappur.“

Hún segir að vissulega beri heimilið líka ábyrgð á að gera eins mikið og hægt er. „Auðvitað er það þannig að þó svo að það vanti peninga þá erum við alltaf með einstaklinginn fyrir framan okkur, við viljum honum það besta og það er okkar hlutverk að finna út úr því hvernig við getum gert betur í dag, með það fjármagn sem við höfum.“ 

Eykst að óbreyttu

Eitt er víst að vandinn á að óbreyttu einungis eftir að aukast. Það er hægt að fá tannlækni inn reglulega eða ráða tannfræðinga á hvert heimili, fáist til þess fjármagn. Það er hægt að setja upp stofu með grunnbúnaði, allavega á stærri hjúkrunarheimilum. Það væri hægt að bæta aðgengi ýmissa hópa að tannlæknaþjónustu með sérútbúinni stofu. Flest er þó enn á hugmyndastigi.

Hólmfríður Guðmundsdóttir, tannlæknir hjá Embætti landlæknis segir að enn sé mikið verk óunnið. „Þarna hafa margar hugmyndir og heilmikil vinna og samtal átt sér stað en það er ekki komið nógu langt.“ 
 

 

20.11.2021 - 08:00