Óbólusettir fá ekki að keppa á Opna ástralska

epa09268328 Novak Djokovic of Serbia celebrates winning against Stefanos Tsitsipas of Greece during their final match at the French Open tennis tournament at Roland Garros in Paris, France, 13 June 2021.  EPA-EFE/CAROLINE BLUMBERG
 Mynd: EPA - RÚV

Óbólusettir fá ekki að keppa á Opna ástralska

20.11.2021 - 11:45
Keppnisstjóri Opna ástralska meistaramótsins í tennis segir að óbólusettir keppendur fái ekki að keppa á mótinu í janúar. Titilhafinn í karlaflokki, Novak Djokovic, hefur ekki viljað gefa upp hvort hann sé bólusettur eða ekki.

Talsverð óvissa hefur verið um keppnisrétt óbólusettra á mótinu eftir misvísandi yfirlýsingar stjórnmálafólks í Ástralíu. Keppnisstjórinn, Craig Tiley, tók af allan vafa um málið í gær og gerði alveg ljóst að óbólusettir keppendur fengju ekki að keppa í janúar. 

Novak Djokovic á titil að verja í karlaflokki og er sigusælasti leikmaður mótsins frá upphafi. Hann hefur ekki viljað gefa upp hvort hann sé bólusettur eða ekki, en hefur áður lýst því yfir að hann sé óbólusettur.

„Novak veit að hann þarf að vera bólusettur til að fá að keppa,“ sagði Tiley.

Djokovic sagði í október að hann væri óviss um hvort hann myndi keppa og myndi bíða eftir staðfestingu frá Tiley. Fyrr í vikunni áréttaði hann skoðun sína að fólk hefði rétt á að velja hvort það færi í bólusetningu eða ekki.

„Frjálst val er nauðsynlegt fyrir alla, hvort það er ég eða einhver annar skiptir ekki máli. Hvort sem það eru bólusetningar eða eitthvað annað í lífinu, maður á að hafa rétt til að velja, að ákveða hvað maður vill gera í tilteknu máli, hvað maður vill setja í líkama sinn,“ sagði hann eftir lokamót ATP-mótaraðarinnar um síðustu helgi.

80% leikmanna í karlaflokki er bólusettur en mótaröð kvenna hefur ekki viljað gefa upp tölurnar sín megin.

Mjög strangar reglur gilda um ferðalög til Ástralíu fyrir óbólusett fólk. Forsætisráðherra Viktoríuríkis Ástralíu, þar sem mótið fer fram, sagði í síðasta mánuði að mjög ósennilegt væri að óbólusett tennisfólk fengi vegabréfsáritun til Ástralíu. Á mótinu á þessu ári þurftu allir keppendur að vera tvær vikur í sóttkví á hóteli fyrir mótið. Sum fengu ekki að yfirgefa hótelið eftir að smit greindist hjá einhverjum í flugi þeirra til landsins og urðu sum að æfa inni á hótelherbergjum sínum í aðdraganda mótsins.

Tengdar fréttir

Tennis

Djokovic vann Opna ástralska í níunda sinn

Tennis

Djokovic alfarið á móti bólusetningum