
MeToo hreyfingin á undir högg að sækja í Kína
Það var ekki fyrr en tenniskonan Peng Shuai sagði fyrrverandi varaforseta landsins hafa nauðgað sér að slíkar ásakanir á hendur æðstu manna komu fram í dagsljósið. Síðan hefur ekkert til hennar spurst.
Bandaríkjastjórn og Sameinuðu þjóðirnar krefja Kínastjórn um sönnur fyrir því að Peng sé heil á húfi. Eins vilja þau fá staðfestingu á því hvar hún sé niðurkomin.
Aðrar konur hafa mátt þola sömu örlög enda tekur Kínastjórn hart á öllum tilraunum til andófs. Algengt er að femínistar sem hafa sig mikið í frammi séu ofsóttir eða fangelsaðir.
Andófskonan Sophia Huang Xueqin var handtekin í september ásökuð um undirróður gegn ríkinu að samkvæmt upplýsingum samtakanna Fréttamenn án landamæra. Á síðasta ári voru sett ný lög þar sem kynferðisbrot voru skilgreind en það hefur litlu breytt.
Fátítt er að kynferðisbrotamál nái inn í réttarsali og enn sjaldgæfara að dómar falli gegn brotamönnum. Hins vegar hafa brotaþolar mátt þola ófrægingu í kjölfarið.
AFP-fréttaveitan hefur eftir ónefndri heimildakonu að konur sem kæra þurfi alltaf að sanna heiðarleika sinn og að ætlun þeirra sé ekki að lyfta sér á stall.
Árið 2018 lokuðu stjórnvöld fyrir margvísleg myllumerki og tiltekin orð eftir að fjöldi kvenna ásakaði háskólaprófessora um kynferðisáreitni.
Enn er ekki hægt að nota myllumerkið MeToo í Kína. Þrátt fyrir að Xi Jinping forseti segi konur vera mikilvægan hlekk í starfsemi ríkisins eru þær harla fáséðar í lykilstöðum.