„Líkaminn var eiginlega bara að öskra“

Mynd: RÚV / RÚV

„Líkaminn var eiginlega bara að öskra“

20.11.2021 - 10:00

Höfundar

Lovísa Ósk Gunnarsdóttir varð fyrir áfalli þrjátíu og níu ára gömul þegar hún slasaði sig og þurfti að hætta að dansa í fyrsta skipti á ævinni. Skömmu síðar var henni aftur brugðið þegar læknar gáfu í skyn að hún væri að byrja á breytingaskeiði rétt um fertugt. Svo var ekki en innblásin af reynslunni samdi hún dansverk sem frumsýnt var á Reykjavík Dance Festival.

Lovísa Ósk Gunnarsdóttir uppgötvaði fljótt ástríðu sína fyrir dansinum en ætlaði sér ekki að verða dansari sem barn, enda vissi hún ekki að það væri hægt að hafa hann að atvinnu. Hún kveðst alin upp á skynsaman hátt og að það hafi lengi staðið til að fara í háskólanám í einhverju augljóslega nytsömu. „Ég var lengi að viðurkenna að þetta væri leiðin sem ég ætlaði að fara,“ segir Lovísa í samtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1.

Ákvað að prófa að fara í inntökuprófið eins og hinir

Hún gekk í Menntaskólann í Reykjavík og var í djassballettskóla Báru að dansa öll kvöld. Það stóð til að fara út í nám aðeins í eitt ár en svo voru allir hinir dansararnir á leið í atvinnudansaranám svo hún ákvað að freista gæfunnar og fór í inntökuprófið, þó ekki nema væri til að bara sjá hvar hún stæði. „Ég komst svo inn og þá var undirmeðvitundin löngu búin að taka þessa ákvörðun,“ rifjar hún upp. Í Stokkhólmi bjó hún í fjögur ár og nam í Ballettakademíunni. „Við lærum ballett, klassískan og módern og það er líka söngleikjadeild,“ nefnir hún sem dæmi. Eftir nám fékk hún fljótt vinnu hjá Íslenska dansflokknum, „og þar hélt bara skólinn áfram því þar færðu hvern danshöfundinn á fætur öðrum sem þú þarft að kynnast og læra stíl viðkomandi. Ég upplifði að skólinn væri ekki síður þar.“

Var spurð á hátindi ferilsins hvað hún ætlaði að verða í framtíðinni

Hún stóð sig vel í starfi og dansaði af lífi og sál en um þrítugt fór hún samt að fá spurninguna: „Hvað ætlarðu að gera þegar þú verður stór?“ Og það fannst henni skrýtið, ekki síst því hún upplifði sig „á hátindi ferilsins, á fullu að ganga hrikalega vel og fá verðlaun. Ég þarf að hugsa um hvað ég ætla að gera þegar ég hætti að dansa, alveg rétt,“ hugsaði hún. Lovísa fór á heimasíðu Háskóla Íslands og skoðaði þar alla kúrsana en hélt áfram að dansa frekar en að skrá sig í annað nám. „Svo var ég bara heppin með skrokk því þetta gekk allt saman vel og ég var í fullu fjöri að gera mjög líkamlega krefjandi sýningar þar til ég var að verða fertug.“

Þurfti að hætta að dansa í fyrst sinn á ævinni

En þá varð Lovísa fyrir áfalli. „Þrjátíu og níu ára slasa ég mig allhressilega. Fæ brjósklos í hálsinn og mjóbakið og í fyrsta sinn á ævinni þurfti ég að hætta að dansa í langan tíma, ég gat ekki hreyft mig,“ rifjar Lovísa upp. Á þessum tíma var hún nýkomin heim eftir að sýna verkið Black Marrow eftir Ernu Ómarsdóttur og Damien Jalet sem var frekar krefjandi. „Þarna var maður að verða fertugur og gaf engan afslátt. Maður hefði getað sagt sér þetta sjálfur smávegis, en þarna hugsaði ég: Vá hvað ég er heppin. Ég er enn hérna í fullu fjöri eins og unga fólkið sem er með mér að vinna og svo bara jinxa ég þessu algjörlega því mér er bara kippt út.“

Þurfti aðstoð við að standa upp úr rúminu

Fallið var fremur bratt. „Ég í raun líkamlega hrundi niður því ég þurfti bara aðstoð til að standa upp úr rúminu. Andlega hliðin fór hægt og rólega að gefa eftir,“ segir Lovísa. Hún ákvað í fyrstu með aga dansarans að líta á þetta sem verkefni sem hún ætlaði að leysa hratt og örugglega. „Þetta urðu bara trúarbrögð; að fara í sjúkraþjálfun, gera æfingarnar mínar á hverjum einasta degi. Það hélt mér gangandi þessi agi. En eftir á að hyggja, eitthvað sem þú ert búin að gera alla ævi og er komið inn í kjarnann þinn og ert þú, þegar það er tekið frá þér þá fattaði ég líka bara hve mikið af mínu bæði andlega og líkamlega dóti ég vinn í gegnum dansinn.“

Dró fyrir í stofunni og dansaði

Við tók krefjandi tími. Hún fór að finna fyrir líkamlegum einkennum eins og hjartslætti og hækkandi blóðþrýstingi. „Líkaminn var eiginlega bara að öskra,“ segir hún. „Ég mátti á einhverjum tíma fara út að labba, það var eina hreyfingin sem ég mátti gera.“ Einn daginn kom hún heim og fannst hún pirruð í líkamanum. Hún heyrði lag spilast í hausnum á sér og ákvað að leyfa sér að gera það sem hún nýtur mest. „Ég dró fyrir í stofunni, setti á lagið og dansaði. Þetta var mjög lítill dans því ég var í klessu líkamlega, en það var einhver tenging svo ég dansaði og leið betur.“

Hljómaði eins og hræðilegur sjúkdómur með martraðakenndum aukaverkunum

Blæðingarnar fóru í ólag og önnur líkamleg einkenni létu á sér kræla sem urðu til þess að læknirinn spurði hana hvenær móðir hennar og systir hefðu farið á breytingaskeiðið. Hún varð þá viss um að þrátt fyrir að vera aðeins fertug væri það það sem væri að gerast. „Mér leið eins og það hefði einhver verið að segja mér frá ljótu leyndarmáli því ég var bara, ég hef aldrei hugsað um breytingaskeiðið,“ rifjar hún upp. „Ég er fertug og hef ekki pælt í þessu, það hefur enginn talað um þetta við mig og ég hef ekki átt samtal við neinn um þetta og svo byrjaði ég að gúgla og þetta hljómaði eins og hræðilegur sjúkdómur, og aukaverkanirnar bara martraðarkenndar.“

Ýtti því á undan sér að ræða málið

Hún þekkti staðalímyndina af konum á breytingaskeiðinu, þá sem birtast til dæmis í bíómyndum „ógeðslega pirraðar í svitakasti. Frá því að vera ungleg Lovísa í fullu fjöri og svo var ég í einu vetfangi orðin bara útrunnin, þetta var bara búið,“ segir hún kankvís. Hún ýtti því á undan sér að ræða málin og beið eftir niðurstöðu frá lækni um hvort grunurinn væri staðfestur. „Það er svo ekki fyrr en ég fæ niðurstöðuna um að ég sé ekki á breytingaskeiðinu sem ég gat stigið til baka og bara: Það er eitthvað bogið við þetta. Það getur ekki verið að lífið sé búið bara um fertugt.“ Þá ákvað hún að nota reynsluna sem innblástur. „Ég einsetti mér að fræða mig og undirbúa fyrir þetta svo ég gæti tekið á móti því þegar að kemur.“

Skortur á miðaldra kvenlíkömum á íslensku sviði

Lovísa las greinar á netinu, hringdi í móður sína til að spjalla um breytingaskeiðið og ræddi við konur í rannsókn sinni. Hún tók ákvörðun um að gera um þetta sviðsverk. „Ég var á þessu tímabili meðvituð um hvað það er mikill skortur á miðaldra kvenlíkömum á íslensku sviði. Allavega í dansheiminum,“ segir Lovísa. „Ég var á þessu tímabili líka bara meðvituð um hvað það er mikill skortur á miðaldra kvenlíkömum á íslensku sviði, allavega í dansheiminum,“ segir hún en bætir við að hennar kynslóð sé að ögra þessu að hluta því margar haldi lengur áfram. „En mér fannst eitthvað áhugavert að skoða þetta og ef maður hugsar um listina sem endurspeglun á lífinu er mjög skrýtið að danslistin endurspegli bara lífið til fertugs, þannig að mig langar að skoða þetta líka.“

Pósthólfið fullt af miðaldra konum að dansa

Hún fékk vinkonu sína í dansheiminum, Ólöfu Ingólfsdóttur, til að dansa smá rútínu, taka sig upp og senda sér. „Hún gerði það og ég trúði ekki mínum eigin augum því þetta var svo fallegt og hún er stórkostlegur dansari. Ég var bara vá, ég hef ekki séð hana dansa í fimmtán ár, af hverju er þessi kona ekki að deila þessari fegurð með okkur hinum?“ segir Lovísa. Hún ákvað að hafa samband við fleiri konur í gegnum Facebook-síðuna Breytingaskeiðið. Fyrr en varir er pósthólfið fullt af myndskeiðum af miðaldra konum að dansa heima í stofu. „Bara alls konar konum, þetta var mjög áhugavert,“ segir Lovísa. „Ég var með okkar bestu dansara og konur sem höfðu aldrei stigið á svið en voru bara að stíga út fyrir þægindarammann í þessum rosalega mjúku aðstæðum.“

„Tilfinningin var að bera þær ofurliði“

Konurnar byrja á að kynna sig, segja hvað þær eru gamlar og svo dansa þær. „Það voru dæmi um að þær þurftu að stoppa því tilfinningin var að bera þær ofurliði, og þá var bara stopp,“ segir Lovísa um einlægnina sem birtist í myndböndunum. Verkið heitir When the bleeding stops og er sýnt á Reykjavík Dance Festival sem hófst 17. nóvember en verður líka sýnt í Noregi á næsta ári.

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Lovísu Ósk Gunnarsdóttur í Segðu mér á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á þáttinn í heild sinni.