Úrslit kosninga ráðast á fimmtudag

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Næstkomandi fimmtudag ræðst hvort ráðist verður í uppkosningu vegna endurtalningar í Norðvesturkjördæmi eða hvort niðurstöður endurtalningarinnar fái að standa. Þann dag kýs Alþingi um niðurstöður kjörbréfanefndar sem kosin verður strax eftir þingsetningu á þriðjudaginn kemur.

Morgunblaðið hefur þetta eftir Birni Leví Gunnarssyni þingmanni Pírata og fulltrúa í undirbúningskjörbréfanefnd. Nefndin hefur haldið tugi funda og farið þrisvar í vettvangsferðir í Borgarnes þar sem atkvæði í Norðvesturkjördæmi voru talin að afloknum þingkosningum 25. september síðastliðinn. Störfum nefndarinnar lýkur brátt.

Birgir Ármannsson formaður nefndarinnar sagði hins vegar í samtali við Morgunblaðið að of snemmt væri að tjá sig um málið. Nefndin væri enn að störfum og endanleg niðurstaða ekki fyrirliggjandi.