
Umdeild landbúnaðarlög á Indlandi slegin af
Narendra Modi forsætisráðherra landsins greindi frá því í morgun að þegar þing kæmi saman undir lok mánaðarins yrði hafist handa við að fella lögin úr gildi.
Hann hvatti svo bændur til að láta af mótmælum og halda heim á leið. Þúsundir bænda, einkum úr Punjab héraði í norðanverðu landinu hafa mótmælt umhverfis höfuðborgina Nýju Delí frá því í nóvember í fyrra. Þar komu þeir sér fyrir í búðum eftir að lögregla stöðvaði för þeirra inn í borgina.
Bændur fullyrða að lögin gerðu rísafyrirtækjum kleift að taka yfir landbúnaðinn á Indlandi. Mikil harka hljóp í mótmæli bændanna í janúar síðastliðnum. Þá lést einn mótmælenda og tugir lögreglumanna særðust í átökum í Delí. Í síðasta mánuði létust átta í mótmælum í Uttar Pradesh ríki.
Amarinder Singh fyrrverandi forsætisráðherra Punjab héraðs fagnaði ákvörðun ríkisstjórnarinnar og þakkaði Modi fyrir að hlusta loks á raddir bændanna.