Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Umdeild landbúnaðarlög á Indlandi slegin af

epa04660439 Indian Prime Minister Narendra Modi looks on during a meeting with Sri Lankan President Maithripala Sirisena (not pictured) at the Presidential Secretariat at Galle Face in Colombo, Sri Lanka, 13 March 2015. Indian Prime Minister Narendra Modi
 Mynd: EPA
Indlandsstjórn hyggst fella úr gildi þrenn lög sem ætluð voru til endurbóta í landbúnaði. Lagasetningin kveikti fjölmenn og hávær mótmæli sem staðið hafa í næstum ár.

Narendra Modi forsætisráðherra landsins greindi frá því í morgun að þegar þing kæmi saman undir lok mánaðarins yrði hafist handa við að fella lögin úr gildi.

Hann hvatti svo bændur til að láta af mótmælum og halda heim á leið. Þúsundir bænda, einkum úr Punjab héraði í norðanverðu landinu hafa mótmælt umhverfis höfuðborgina Nýju Delí frá því í nóvember í fyrra. Þar komu þeir sér fyrir í búðum eftir að lögregla stöðvaði för þeirra inn í borgina.

Bændur fullyrða að lögin gerðu rísafyrirtækjum kleift að taka yfir landbúnaðinn á Indlandi. Mikil harka hljóp í mótmæli bændanna í janúar síðastliðnum. Þá lést einn mótmælenda og tugir lögreglumanna særðust í átökum í Delí. Í síðasta mánuði létust átta í mótmælum í Uttar Pradesh ríki. 

Amarinder Singh fyrrverandi forsætisráðherra Punjab héraðs fagnaði ákvörðun ríkisstjórnarinnar og þakkaði Modi fyrir að hlusta loks á raddir bændanna.    

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV