Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Sjö sækjast eftir forsetaembætti í Síle

epa09590556 Supporters of the presidential candidate for the Frente Amplio, Gabriel Boric, attend the campaign closing ceremony, in the Valparaiso region, in the commune of Casablanca, Chili, 18 November 2021.  EPA-EFE/Alberto Valdes
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Sjö sækjast eftir forsetaembættinu í Suður-Ameríkuríkinu Síle en forsetakosningar verða haldnar í landinu næstkomandi sunnudag. Sömuleiðis verður kosið til neðri deildar þingsins og helmings öldungadeildarinnar.

Frambjóðendur spanna allt pólítíska litrófið í landinu en skoðanakannanir sýna að miðjumenn njóta minnstrar hylli. Um það bil helmingur kjósenda hefur enn ekki gert upp hug sinn.

Hægrimaðurinn Sebastian Pinera, sitjandi forseti er ekki í framboði en hann er afar óvinsæll. Vinstri maðurinn Gabriel Boric og hægri maðurinn Jose Antonio Kast njóta hvor um sig  stuðnings fjórðungs kjósenda ef marka má kannanir.

Nýtt þing tekur við eftir kosningarnar á sunnudag en landsmenn greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá á næsta ári. Stjórnlagaþing sem kjörið var í maí síðastliðnum vinnur nú að gerð hennar. 

Gildandi stjórnarskrá landsins er í grunninn frá árinu 1980 í stjórnartíð Augustos Pinochet. Um það bil 80% kjósenda samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu í lok október að kveðja gömlu stjórnarskrána og semja nýja. 

Það gerðist í kjölfar mikilla mótmæla árið 2019 þegar krafist var umbóta á stjórnkerfi landsins. Háværar kröfur eru uppi um bætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, menntun og breytingu á lífeyrissjóðakerfi landsins. 

Kosningaþátttaka í Síle er almennt lítil eftir að látið var af skylduþátttöku árið 2012. Því búast stjórnmálaskýrendur við að velja þurfi milli tveggja efstu manna 19. desember næstkomandi þar sem helming atkvæða þarf til að forseti teljist réttkjörinn.