Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fimm framsækin og fersk á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Frederik Heyman - Prada/Rakata

Fimm framsækin og fersk á föstudegi

19.11.2021 - 14:30

Höfundar

Stærstu lögin í vikunni eru eflaust frá Adele og Taylor Swift en þið vitið það auðvitað og þess vegna spáum við í öðru í Fimmunni. Við byrjum á tónlistarkonunni Arca frá Venezuela, sem er ekki eins og flest, og rennum okkur síðan í ný lög frá Big Thief, José González ásamt DJ Koze, Beirut og FKA Twigs ásamt Central Cee.

Arca – Prada/Rakata

Tónlistarkonan Arca sendi í byrjun mánaðarins frá sér ansi magnað tónlistarmyndband og þrívíddarveislu fyrir augað við lögin Prada/Rakata sem verða á plötu hennar Kick ii. Sú er númer fjögur í röðinni frá tónlistarkonunni sem er líklega sú allra framsæknasta í poppinu síðustu ár og eflaust mörg spennt að hlusta á plötuna sem kemur út í byrjun desember á XL Recordings.


Big Thief – Time Escaping

Dragon New Warm Mountain I Believe In You er nafnið á nýju plötu Brooklyn indí/folk-krúttanna í Big Thief og Time Escaping er fimmta lagið sem þau gefa út sem söngul. Platan kemur út í febrúar og virðist vera ponkulítið tilraunakenndari og taktmeiri en fyrri verk sveitarinnar þó að hljómur hennar sé langt frá því að glatast.


José González – Tjomme (DJ Koze Remix)

Sænski tónlistarmaðurinn José González hefur sent frá sér lagið Tjomme af nýju plötunni sinni, Local Valley, og það í endurhljóðblöndun hins þýska DJ Koze. Sá þýski segist hafa reynt að beygja lagið að dansgólfinu á afslappaðan og þægilegan hátt og það tekst bara virkilega vel hjá honum.


Beirut – So Slowly

Tónlistarmaðurinn Zach Condon, sem kallar sig af einhverjum ástæðum Beirut, hefur sent frá sér lagið So Slowly sem verður að finna á safnplötu hans Artificats sem kemur út í byrjun næsta árs. Annars búa rúmlega tvær milljónir í Beirut, sem er ein af eldri borgum heimsins og höfuðborg Líbanons, en hljómsveitin Human League gerði einmitt ansi gott lag um ástandið í Líbanon snemma á níunda áratug síðustu aldar.


FKA Twigs ásamt Central Cee Beirut DJ Koze – Measure Of a Man

Tónlistarkonan FKA Twigs er á Bond-buxunum í lagi sínu Measure of a Man. Lagið verður að finna í þriðju mynd Kingsmen, The King’s Man. Hún fær breska rapparann Central Cee sér til aðstoðar í laginu sem er með hennar poppuðustu slögurum.


Fimman á Spotify