Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Engir jólamarkaðir í Bæjaralandi í ár

19.11.2021 - 19:18
epa05044833 People gather for the official opening of the Christkindlmarkt at Marienplatz square in Munich, Germany, 27 November 2015. The Christmas market opens from 27 November to 24 December.  EPA/MATTHIAS BALK
Jólamarkaðurinn í München nýtur mikilla vinsælda. Mynd: EPA - DPA
Yfirvöld í Bæjaralandi í Þýskalandi ákváðu í dag að aflýsa öllum jólamörkuðum í sambandsríkinu vegna kórónuveirufaraldursins. Jafnframt ákváðu yfirvöld að útgöngubann verði lagt á öll héruð þar sem sjö daga smittíðni er meiri en þúsund smit á hverja 100 þúsund íbúa. 

Smittíðnin í Bæjaralandi er nærri tvöfalt meiri en í Þýskalandi öllu samkvæmt gögnum frá smitsjúkdómamiðstöð stofnunar Robert Koch. 

Markus Söder, sambandsríkisstjóri Bæjaralands, gaf það út að þeir sem ekki eru fullbólusettir verði að sæta nokkurs konar útgöngubanni. Aðeins þeir sem eru fullbólusettir eða hafa jafnað sig af COVID-19 mega þá sækja veitingastaði sambandsríkisins eða gista á hótelum þess. Söder benti á að um 90 af hundraði þeirra sem eru á COVID-deildum sjúkrahúsa eru óbólusettir. 

Deutsche Welle hefur eftir þýska heilbrigðisráðherranum Jens Spahn að faraldurinn hafi versnað verulega undanfarna viku, og það stefni í neyðarástand. Hann sagðist ekki geta útilokað möguleikann á útgöngubanni á ný um allt land.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV