Dalvíkurbyggð skellt í lás eftir smit í grunnskólanum

19.11.2021 - 12:09
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Grunnskóla, tónlistarskóla, menningarhúsi og íþróttamiðstöð Dalvíkur hefur verið lokað eftir að rúmlega tuttugu smit greindust í bænum. Búið er að skima tæplega 400 manns og eru íbúar hvattir til að halda sig til hlés á meðan verið er að ná utan um smitið.

Tæplega 400 sýni tekin

Á fimmtudaginn greindust tveir starfsmenn og nemandi í grunnskólanum á Dalvík með veiruna. Í framhaldinu var grunnskólanum og tónlistarskólanum í bænum lokað og allir nemendur og kennarar skimaðir. Nú hafa á þriðja tug greinst og samfélagið í miklum hægagangi. Íris Hauksdóttir er þjónustu- og upplýsingafulltrúi Dalvíkurbyggðar. „Staðan er nú bara þannig að í gær voru allir starfsmenn Dalvíkurskóla og nær allir nemendur settir í PCR próf og þetta er á milli 360-370 manns þar af skilaði sér 23 jákvæði smit, 4 fullorðnir og 19 börn og lang flestir af yngsta stigi skólans,“ segir Íris. 

Stemningin góð

Öllu íþrótta- og félagsstarfi í bænum hefur verið slegið á frest og lokað hefur verið fyrir heimsóknir á dvalarheimilið. 

Þannig að það er eiginlega búið að skella öllu í lás á Dalvík?

„Heyrðu já núna er það eiginlega þannig. Stemningin er samt ótrúlega góð miðað við allt. Ég upplifi bara gríðarlega jákvæðni og bjartsýni og hér vilja allir bara sigrast á þessum vágesti sem fyrst.“