Vísar fullyrðingum þingmanna í Kastljósi á bug

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heilbrigðisráðuneytið vísar á bug fullyrðingum sem settar voru fram í Kastljósi í gær um að ráðuneytið hafi afþakkað hjúkrunarrými af hendi einkaaðila. „Þetta er í öllum atriðum rangt,“ segir í tilkynningu á vef heilbrigðisráðuneytisins. 

Þær Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi, og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, voru gestir Kastljóss í gær. Þær sögðu fjölda hjúkrunarrýma einkaaðila standa til boða sem stjórnvöld hafi slegið út af borðinu. 

Ráðuneytið segir á vef sínum að fyrirtækið Heilsuvernd hafi boðið fram húsnæði í Urðarhvarfi fyrir rekstur hjúkrunarrýma. Viðræðum Sjúkratryggingar Íslands og Heilsuverndar var hins vegar sjálfhætt þegar eigandi hússins lýsti yfir að húsnæðið væri ekki til ráðstöfunar fyrir verkefnið.
Inga fullyrti í Kastljósi að Hrafnistuheimilin væru reiðubúin að taka á móti á annað hundrað öldruðum í hjúkrunarrými, og létta þar með á álaginu á sjúkrahúsin. Ráðuneytið segir þetta algjörlega úr lausu lofti gripið.

Heilbrigðisráðuneytið hafi átt í góðu samstarfi við hjúkrunarheimilin, þar með talið Hrafnistu, um leiðir til að fjölga hjúkrunar- og dagdvalarrýmum. Á næstu vikum verði opnuð ný hjúkrunardeild fyrir 11 aldraða á gamla Sólvangi í Hafnarfirði. Í byrjun næsta árs verða svo 39 rými til skammtímadvalar og endurhæfingar fyrir aldraða opnuð í Sólvangi. Þá standa yfir miklar framkvæmdir við húsnæði Landspítala á Landakoti vegna opnunar þrjátíu nýrra endurhæfingarrýma og hefur hluti þeirra þegar verið tekinn í notkun að sögn ráðuneytisins.

Loks segir heilbrigðisráðuneytið a sömu lög, reglur og viðmið gildi um uppbyggingu húsnæðis hjúkrunarheimila og rekstur þeirra hvort sem þau komi í hlut opinberra aðila eða einkaaðila.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV