Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Launahækkanir úr takti við veruleikann

ásgeir jónsson seðlabankastjóri eftir vaxtaákvörðunarfund 25. ágúst
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 0,5 prósentur í morgun. Hluti hækkunarinnar er rakinni til launahækkana í kjarasamningum sem Seðlabankinn segir á skjön við efnahagslegan veruleika.

Þetta er fjórða stýrivaxtahækkunin frá því í maí og sú brattasta til þessa. Vextir stóðu í 0,75 prósentum í maí en verða nú 2 prósent.

Partýið fari ekki úr böndunum

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, segir hækkunina nauðsynlega til að koma böndum á hagkerfið. Kæla þarf húsnæðismarkaðinn og kveða niður verðbólgu. Hækkunin sé til marks um að vel hafi gengið að koma hagkerfinu út úr faraldrinum. „Og eiginlega of vel því það felur þá í sér að við þurfum að bregðast við. Við þurfum að hækka vexti til að partýið fari ekki úr böndunum.“

Hagvaxtaraukinn vanhugsaður

Seðlabankastjóra er tíðrætt um miklar launahækkanir, bæði þær sem þegar eru orðnar og þær sem fyrirséð er að verði samkvæmt kjarasamningum. Hann telur þær ekki í takt við efnahagslegan veruleika. „ Eins og þessi hagvaxtarauki sem nú á að greiða út. Ég held að hann sé vanhugsaður í ljósi þess að verðmætasköpunin hefur ekki aukist. Þetta er að einhverju leyti bara pappírshagvöxtur.

Efnahagslegur raunveruleiki stýrir lífskjörum

Þau skilaboð hafa borist frá verkalýðshreyfingunni að stýrivaxtahækkunum verði mætti með launahækkunum í næstu kjarasamningslotu. Ásgeir segir það hrein öfugmæli. „Tveir plús tveir eru fjórir. Það er ákveðinn efnahagslegur raunveruleiki sem ræður því hvaða lífskjör við getum haft í þessu landi. Við getum ekki farið út fyrir það. Við höfum það hlutverk hér að tryggja það að það sem er samið um í kjarasamningum að það haldi sínu verðgildi. Okkar hlutverk er að tryggja það að íslenska krónan haldi sínu verðgildi og að allir aðilar sem semja í þessu landi geti reitt sig á það að hún haldi stöðugu verðgildi. Verkalýðsfélögin eða hverjir aðrir.“

Magnús Geir Eyjólfsson