Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Jarðskjálfti við Grindavík eftir langt hlé

17.11.2021 - 22:51
Jarðhræringar, jarðskjálftamælir, Þorbjörn, Reykjanes, Suðurnes, Grindavíkurkaupstaður, Hraun, hraunbreiða, náttúra, Vetur, Vetrarveður, fallegt vetrarveður,
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Eftir margra mánaða hlé varð jarðskjálfti af stærðinni þrír skammt frá Grindavík um klukkan átta í kvöld.

Skjálftinn í kvöld átti upptök sín þrjá og hálfan kílómetra norðaustur af Grindavík á rúmlega fimm kílómetra dýpi. Hann mældist klukkan 20:11. Fleiri skjálftar hafa ekki mælst í kjölfarið á þessum slóðum sem talandi er um.

Nokkuð rólegt hefur verið á þessum slóðum undanfarnar vikur og mánuði eftir stormasama tíð frá því að jarðskjálftahrina hófst árið 2019 á Reykjanesi, sem náði hámarki sínu skömmu fyrir eldgosið í Fagradalsfjalli sem hófst í mars á þessu ári og virðist lokið, í bili að minnsta kosti. 

Nokkur jarðskjálftavirkni var svo við Keili í haust en seinustu vikur hefur allt verið með kyrrum kjörum. Var sú skjálftahrina ekki tengjast kvikuhreyfingum, ekki nema þá á miklu dýpi. 

Skjálftinn í kvöld fannst greinilega í Grindavík samkvæmt frétt Víkurfrétta. 

Veðurstofa Íslands greindi frá því í dag að land sé tekið að rísa norður af Keili á Reykjanesi og suður fyrir gosstöðvarnar við Fagradalsfjall. Land seig umhverfis gosstöðvarnar á meðan gaus. Það var líklega vegna kviku sem streymdi úr kvikugeymi.

GPS mælar sýndu í lok ágúst að byrjað væri að draga úr siginu og upp úr miðjum september var land byrjað að rísa. Risið er þó mjög lítið, eða um tveir sentimetrar þar sem það er mest.