Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Bítlarnir í nýju ljósi

17.11.2021 - 19:25
Mynd: Parlophone Music Sweden / Wikipedia
Tugir klukkustunda af áður óbirtu efni nýttust við gerð nýrrar heimildamyndar um Bítlana sem sýnd verður á streymisveitunni Disney plús síðar í mánuðinum. Eftirlifandi Bítlum og afkomendum þeirra allra var boðið á frumsýningu í Lundúnum í gær.

Í janúar árið 1969 fékk hópur kvikmyndagerðafólks að vera eins og fluga á vegg og mynda Bítlana við upptökur á plötunni Let it Be. Plötu sem upphaflega átti að heita Get Back. Svo heimildamyndin nýja heitir The Beatles: Get Back. 

Eftir kvikmyndagerðahópinn lágu 57 klukkustundir af myndefni sem nýtt var í heimildarmynd sem kom út ári síðar. Mikið af myndefninu hefur hins vegar aldrei ratað fyrir augu almennings áður, fyrr en nú þegar kvikmyndaleikstjórinn Peter Jackson hnýtti saman þremur tveggja klukkustundalöngum þáttum sem verða aðgengilegir á streymisveitunni Disney+ í lok mánaðarins. 

Paul McCartney sagði í viðtali við NME að eftir áhorf á þættina hefði hann séð endalok Bítlanna í nýju ljósi. 

Eftirlifandi Bítlunum og afkomendum þeirra allra var boðið til frumsýningar í London í gær. Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá viðbrögð Dhani Harrison, sonar George Harrison og Zak Starkie, sonar Ringo Starr meðal annarra. 

„Þegar maður sér myndskeiðin hans Peters svona saman, ég varð agndofa þegar ég sá John fyrst syngja. Var John með gulltennur?“ sagði Dhani Harrison, sonur George Harrison

„Ætíð þegar ég sé föður minn í sjónvarpi kemst ég við út af því sem hann kom í verk og hvaðan hann kom og að hann breytti heiminum,“ sagði Zak Starkie, sonur Ringo Starr. 

„Þetta snertir tilfinningar og ég veit ekki hvort ég á að segja frá því að ég fæddist í október árið 1969. Svo ég var getinn á þessum tíma. Ég er því að reyna að sjá hvenær faðir minn skælbrosir á myndunum,“ segir sonur upptökustjórans George Martin. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV