Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

AGS getur ekki liðsinnt Zimbabwe fjárhagslega

epa06919219 Children play outside a polling station on election day in Mungate Village outside Harare, Zimbabwe, 30 July 2018. Zimbabweans are called to choose between 23 presidential candidiates and more than 120 parties who have registered to take part
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tilkynnti í dag að hann gæti ekki veitt Afríkuríkinu Zimbabwe fjárhagsstuðning. Gjaldfallnar skuldir ríkisins við erlenda lánadrottna væru of miklar.

Í yfirlýsingu sjóðsins kemur fram að ljóst væri þó að ríkið hefði sýnt fram á tilburði til að draga úr verðbólgu, minnka fjárlagahalla og að auka hagvöxt. Þrátt fyrir ýmis áföll spáir AGS sjö prósenta hagvexti í ár.

Gríðarleg verðbólga hefur þjakað efnahag Zimbawbe undanfarin fimmtán ár og gjaldfallar erlendar skuldir ríkisins nema um tíu milljörðum Bandaríkjadala. Ríkissjóður greiddi í fyrsta sinn í 20 ár af erlendum lánum nú í september.

Efnahagurinn er enn í járnum vegna fjármálalegrar óstjórnar í forsetatíð Roberts Mugabe frá 1987 til 2017. Hvorki Alþjóðabankinn né Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa hlaupið undir bagga undanfarna tvo áratugi vegna stöðunnar í efnahagsmálum Zimbabwe.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV