Hvaða gæi er á tíu þúsund króna seðlinum?

Mynd: KrakkaRÚV / Árni Beinteinn Árnason

Hvaða gæi er á tíu þúsund króna seðlinum?

16.11.2021 - 17:09

Höfundar

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur um land allt á afmælisdegi listaskáldsins góða, Jónasar Hallgrímssonar, sem prýðir tíu þúsund króna seðilinn ásamt heiðlóu. Krakkafréttir fóru á stúfana á Akureyri og athuguðu hvort unga fólkið þar kannaðist við gæjann á bláa seðlinum.

 

Eins og kunnugt er fæddist Jónas Hallgrímsson 16. nóvember árið 1807 að Hrauni í Öxnadal. Hann er eitt af okkar ástsælustu ljóðskáldum en hann var líka náttúrufræðingur og hafði mikinn áhuga á íslenskri tungu og menningu. Hann á heiðurinn að mjög mörgum nýyrðum sem eru vissulega engin nýyrði lengur heldur bara orð sem við notum dags daglega, eins og páfagaukur, mörgæs, sólkerfi, aðdráttarafl og stuttbuxur. Það hlýtur því að teljast viðeigandi að dagur íslenskrar tungu sé tileinkaður þessum mikla aðdáanda íslenskunnar.  

Árið 2013 var Jónas valinn sem andlit tíu þúsund króna seðilsins ásamt heiðlóunni. En þekkja krakkar Jónas Hallgrímsson? Elfa Rún Karlsdóttir fréttaritari Krakkafrétta á Norðurlandi athugaði hversu mannglöggir ungir Akureyringar væru og hvað væri þeirra uppáhalds orð á íslensku.