Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hröð bráðnun Breiðamerkurjökuls kom á óvart

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Breiðamerkurjökull virðist hopa hraðar en vísindamenn reiknuðu með. Þetta sýna niðurstöður frá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði, sem hafa myndað jaðar jökulsins með skeiðmyndum. Þorvarður Árnason forstöðumaður rannsóknarsetursins segir ljóst að jökullinn bráðni hraðar með hverju árinu.

Myndavélarnar taka fjórar ljósmyndir á klukkutíma yfir um það bil tíu klukkustunda tímabil. Út frá þessu myndum er svo búið til skeiðmynd (e. timelapse) sem sýnir breytingarnar yfir tiltekið tímabil.

„Myndirnar eftir fyrstu sex vikurnar sýndu miklu, miklu hraðari bráðnun heldur en við höfðum átt von á“ segir Þorvarður. „Síðan fannst okkur tilvalið að deila þessu með almenningi í tilefni af COP26 ráðstefnunni í Glasgow.“

Rannsóknarsetrið ætlar sér að vakta bráðnun jökulsins með þessum hætti næstu hundrað árin. Þorvarður segir að þó niðurstöður þeirra úr þessari fyrstu vöktun séu sannarlega vonbrigði, þá velti það á aðgerðum í loftslagsmálum á næstu tveimur áratugum, hvort takist að hægja á bráðnun jöklanna eða ekki.

„Þá munum við samt sitja uppi með syndir fortíðar ef við getum orðað það þannig“ segir Þorvaður. „Þannig að jöklar munu halda áfram að bráðna en því fyrr sem við getum gripið í taumana því meiri líkur eru á því að það verði þá einhverjir jöklar eftir þegar að fram líða stundir.“

Hér að neðan má svo sjá fyrstu skeiðmyndina af hopun Breiðamerkurjökuls.

Six weeks of glacier melt at Breiðamerkurjökull from Kieran Baxter on Vimeo.