Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hreiður rænd þrátt fyrir varnartilburði foreldranna

16.11.2021 - 07:50
Mynd: Halla Ólafsdóttir / RÚV/Landinn
„Hér hafði sem sagt verið eitt egg sem nú hefur verið étið,“ segir Lilja Jóhannesdóttir, fuglafræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands. Við erum á ferð með Lilju á Breiðamerkurssandi þar sem hún fylgist með því varpárangri skúma.

Skúmurinn á válista

Skúmnum hefur fækkað mikið og er á válista og talinn í bráðahættu - en þriðjungur heimsstofnsins verpir hér á landi. Lilja segir ástæðuna fyrir fækkuninni líklega felast í breytingum á fæðuaðgengi en eins og fleiri sjófuglategundir þá hefur skúmurinn reitt sig á sandsíli sem hefur verið af skornum skammti eftir hrun í sandsílastofninum. 

Nokkrum sinnum slegin í hausin við störf sín

Lilja hefur komið fyrir nokkrum myndavélum við skúmshreiðrin til að freista þess að sjá hvað fuglarnir eru að færa ungum sínum – sem og til að sjá hvaða afræningjar eru helst á ferðinni. Skúmurinn verpir aðeins einu til tveimur eggjum í látlaus hreiður sín og foreldrarnir eru ekki tilbúnir að hleypa okkur Lilju mjög nærri hreiðrinu án þess að láta okkur finna fyrir sér.  „Þau eru búin að hafa mikið fyrir þessu og leggja náttúrlega allt í sölunnar, eins og margir eflaust þekkja, það er mikið gert fyrir afkvæmin,“ segir Lilja, sem hefur nokkrum sinnum verið slegin í hausinn við störf sín. 

Mikið afrán

Varnartilburðir þessa pars höfðu greinilega skilað einhverjum árangri því að þetta var eina hreiðrið þennan daginn sem var ekki búið að ræna. Ýmsir afræningjar koma til greina, eins og tófa, minkur, aðrir fuglar og jafnvel kindur eða hreindýr.

Mynd: Náttúrustofa Suðausturlands / Náttúrustofa Suðausturlands

Kindur ekki smeikar við skúminn

Við komum aftur við hjá Lilju í lok sumars til að sjá hvers hún hefði orðið vísari úr upptökum myndavélanna. - En því miður sást ekki hver var að verki - en ljóst að kindur eru ekki smeykar við skúminn. Þá voru aðeins örfá pör sem komu upp unga og illsjáanlegt hvað unginn fékk að éta. 

„Margt áhugavert sem kom fram þótt við næðum ekki að svara rannsóknarspurningunni almennilega,“ segir Lilja.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður