Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hallast að því að seinni talningin í Norðvestur gildi

16.11.2021 - 21:38
Mynd: RÚV / RÚV
Inga Sæland, sem á sæti í undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa, segist ekki sjá neitt annað í stöðunni núna en að seinni talningin í Norðvesturkjördæmi verði látin gilda. Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld. Hún vildi að öðru leyti ekki tjá sig neitt frekar á þessu stigi málsins en reiknaði ekki með að það yrðu miklar breytingar á þeim dögum sem nefndin ætlaði að nota til að ljúka störfum.

Hægt er að horfa á þáttinn hér.

Þess er nú beðið að undirbúningsnefndin ljúki störfum þannig að Alþingi geti komið saman og skorið úr um réttmæti þeirra kjörbréfa sem gefin hafa verið út. Spjótin beinast aðallega að þeim fimm þingmönnum sem náðu kjöri eftir að atkvæði í kjördæminu voru endurtalin og þeim frambjóðendum sem duttu út. 

Inga sagði nefndina hafa unnið samkvæmt vönduðum stjórnsýslureglum og í dag hafi hún staðsett sig á þeim stað að seinni talningin verði látin gilda.  „Og ég býst nú ekki við að það verði miklar breytingar á þeim dögum sem við ætlum til að ljúka störfum.“

Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, sagði það þyngra en tárum taki að kosningarnar í kjördæminu hefðu klúðrast með þessum hætti. „Það á ekki að vera flókið að telja atkvæði í einu minnsta kjördæmi landsins.“ Hún sagðist ekki hafa forsendur til að taka afstöðu til málsins núna, hún eins og aðrir þingmenn væru að bíða eftir niðurstöðu nefndarinnar.

Inga og Guðrún voru einnig spurðar hvað þeim fyndist um þær hugmyndir að ríkari kröfur yrðu gerðar til óbólusettra en bólusettra eins og hefur verið gert í löndum eins og Austurríki og í þýsku höfuðborginni Berlín.

Guðrún sagði varhugavert að skerða frelsi einhvers hóps umfram aðra og hugnaðist ekki að stilla þegnum landsins upp í „við“ og „þeir“ . Undir það tók Inga sem taldi að með því að draga fólk í dilka væri stjórnvöld komin út á hálan ís.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV