Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telja að Xi leggi áherslu á Taívan á fundi með Biden

15.11.2021 - 11:04
epa09576554 A picture released by Xinhua News Agency shows Xi Jinping (C), general secretary of the Communist Party of China (CPC) Central Committee, making a speech at the sixth plenary session of the 19th CPC Central Committee in Beijing, China, 11 November 2021. At the sixth plenary session on 11 November, China's Communist Party passed a historic resolution praising President Xi Jinping's role in China's rise as an economic and strategic power. The resolution is the third of its kind after Mao Zedong and Deng Xiaoping. The session was held in Beijing from 08 to 11 November.  EPA-EFE/JU PENG MANDATORY CREDIT  EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA
Xi Jinping, forseti Kína, mun leggja höfuðáherslu á Taívan á fundi sínum með Joe Biden Bandaríkjaforseta í fyrramálið. Þetta kemur fram í leiðurum ýmissa kínverskra ríkisfjölmiðla í dag.

Erfitt samband

Fundurinn fer fram með rafrænum hætti og má búast við því að fjöldi mála verði tekinn fyrir enda hafa ríkisstjórnir landanna tveggja deilt um fjölda mála síðustu misseri. Má þar meðal annars nefna ofsóknir gegn Úígúrum í Xinjiang-héraði, deilur um viðskipti og tækni og stöðu Taívans.

Stjórnvöld á meginlandinu, Kínverski kommúnistaflokkurinn, gera tilkall til eyjunnar og segja hana óaðrjúfanlegan hluta ríkisins. Eyjan er aftur á móti ekki undir stjórn kommúnistaflokksins og hefur aldrei verið. Allflest ríki heims viðurkenna einungis sjálfstæði Alþýðulýðveldisins Kína, það er stjórn kommúnistaflokksins á meginlandinu, en ekki Lýðveldisins Kína sem er í dagligu tali nefnd Taívan.

Spennan magnast

Síðustu mánuði hefur togstreitan á Taívanssundi magnast. Kínverskar herþotur hafa ítrekað flogið inn í loftvarnarsvæði Taívans og Kínverjar lýstu í síðustu viku megnri óánægju með heimsókn bandarískra þingmanna til eyjunnar. 

Fram kemur í leiðara China Daily, kínversks fréttamiðils á ensku, að Xi muni líklega tjá Biden á fundi þeirra að Kína ætli sér að sameina þjóð sína alla í náinni framtíð sama hvað það kostar. Svipað mat birtist í Global Times.

„Til þess að draga úr líkum á að Kína og Bandaríkin lendi í áflogum verður síðarnefnda ríkið að halda sig til hlés þegar kemur að málefnum Taívans,“ sagði í leiðara blaðsins.

Kínversk stjórnvöld eiga, samkvæmt Reuters, gjarnan samskipti við ritstjóra ríkismiðla um stefnu stjórnvalda og er því talið nokkuð öruggt að leiðarar blaðanna séu í ágætu samræmi við þankagang forsetans.

Þórgnýr Einar Albertsson