CeaseTone - Egotopia

Mynd: CeaseTone / CeaseTone

CeaseTone - Egotopia

15.11.2021 - 16:55

Höfundar

Hafsteinn Þráinsson starfar undir listamannsnafninu CeaseTone og var að senda frá sér sína aðra breiðskífu sem heitir Egotopia. Hann sendi undir þessu nafni frá sér plötuna Two Strangers árið 2016 og þröngskífuna Stranded ári síðar, auk nokkurra stakra laga.

Í sumar hljómaði nokkuð reglulega í útvarpstækjum landsmanna lagið Ég var að spá sem er samstarfsverkefni CeaseTone við þau JóaPé og Rakel en Hafsteinn hefur verið með CeaseTone-verkefnið í gangi síðan árið 2012. Hann hefur einnig unnið töluvert með Axel Flóvent auk þess að vera upptökustjóri eða pródúser fyrir aðra tónlistarmenn.

Platan Egotopia inniheldur tólf lög og hefur verið lengi á borðinu hjá Hafsteini. Hún hefur að hans sögn tekið miklum breytingum á þeim fimm árum sem hún hefur verið í smíðum þrátt fyrir að það sé kannski ekki augljóst fyrir hlustandann. Áhrifin koma víða segir Hafsteinn en planið var að byrja bjart en poppað og enda í tilaunakenndu myrkri svo tilfinningin sé að hún sé einhvers konar ljósaskipti. Eins og er gjarna á plötum nú á dögum er gestkvæmt hjá Hafsteini á Egotopia en þar er að finna framlög frá áðurnefndri Rakel og Axel Flóvent auk þess sem Zaar kíkir í heimsókn.

Plata vikunnar á Rás 2 er plata CeaseTone - Egotopia og verður hún spiluð eftir tíufréttir í kvöld ásamt kynningum Hafsteins auk þess að vera aðgengileg í spilara.