Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Borgin skoðar starfsemi Sælukots

15.11.2021 - 15:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnendur leikskólans Sælukots í Reykjavík hafa verið boðaðir á fund skóla -og frístundasviðs borgarinnar vegna kvartana og ábendinga um starfsemi leikskólans. Nokkuð er um að foreldrar barna á leíkskólanum hafi samband við sviðið og biðji um flutning fyrir börn sín.

Í samtali við fréttastofu RÚV staðfestir Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs. að nú fari fram lokaferli ytra mats á starfsemi leikskólans. Rekstraraðilar og leikskólastjóri hafi verið boðaðir á fund síðar í þessari viku. 

Í skriflegu svari skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að bæði kvartanir og ábendingar hafi borist sviðinu vegna Sælukots sem er sjálfstætt rekinn leikskóli. Nú sé verið að skoða ýmsa þætti þeirra eins og til dæmis fjölda barna á hvern starfsmann en í yfirlýsingu fyrrverandi starfsmanna og foreldra barna á leikskólanum kemur fram að of mörg börn séu á hvern starfsmann, hreinlæti sé þar ábótavant og starfsfólk sé illa undirbúið fyrir leikskólastörf.

Þá sagði fyrrverandi starfsmaður leikskólans í viðtali við fréttastofu að hún hefði verið ein með sex ung börn og þá hefði hún verið ein tveggja starfsmanna með ellefu börn yngri en þriggja ára. Móðir stúlku, sem gekk í leikskólann, hefur nú kært starfsmann fyrir að hafa brotið kynferðislega á dóttur hennar í þrígang.

Segja rekstraraðila og leikskólastjóra bera ábyrgð

Í svari skóla- og frístundasviðs segir að rekstraraðilar og leikskólastjórar sjálfstætt rekinna leikskóla beri ábyrgð á starfsemi þeirra gagnvart Reykjavíkurborg sem og gagnvart börnum og foreldrum leikskólans. „Það er því hlutverk rekstraraðila og leikskólastjóra að grípa til viðeigandi aðgerða þegar upp koma einstaka mál eða athugasemdir gagnvart starfsemi leikskólans. Það er hlutverk Reykjavíkurborgar að tryggja að viðeigandi úrbætur séu gerðar,“ segir í svarinu.

Foreldrar skoða aðra möguleika

„Skóla- og frístundasvið fer með lögbundið eftirlit með starfsemi leikskólans og eftirlit með efndum þjónustusamningsins sem í gildi er við leikskólann. Ef upp koma vísbendingar um að leikskóli fari ekki að lögum og sinni ekki lögbundnum skyldum sínum er sveitarfélaginu skylt að ganga úr skugga um hvort rétt sé og sjá til þess að úrbætur verði gerðar,“ segir í svarinu.

Þar segir ennfremur að fyrirspurnir hafi borist frá foreldrum barna á Sælukoti um að börn þeirra fái skólavist á öðrum leikskólum.