Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Siðlaus dóni og menn sem þrá viðurkenningar

Mynd: Forlagið / RÚV

Siðlaus dóni og menn sem þrá viðurkenningar

14.11.2021 - 13:00

Höfundar

„Kannski er ég að gera grín að sjálfum mér að vera inni í þessum heimi þar sem menn elska menn og þrá viðurkenningu hvor annars,“ segir Haukur Ingvarsson, rithöfundur, um titil ljóðabókar sinnar sem vísar um leið í viðfangsefni fræðibókar sinnar. Báðar gaf Haukur út á dögunum.

Rithöfundurinn Haukur Ingvarsson gaf út tvær bækur á dögunum, ljóðabókina Menn sem elska menn og fræðibókina Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu: Orðspor Williams Faulkners í íslensku menningarlífi 1930-1960. Haukur ræðir söguna á bak við skrif sín, ferlið og innblástur.  

Frá dóna til Nóbelsverðlaunahafa  

Mynd með færslu

Fræðibókina um Faulkner byggði Haukur á doktorsritgerð sinni sem hann lauk við fyrir ári síðan. Undanfarið ár hefur hann og Gunnar Þór Bjarnason, ritstjóri, lagt dágóða vinnu í að gera viðfangsefni hennar aðgengilegra fróðleiksfúsum almenningi en einnig hefur miklum tíma verið varið í að myndskreyta verkið. Bókin er einstaklega fallegur gripur og hefur Haukur verið spurður hvort þetta sé fyrsta „coffee table“ bókmenntafræðibókin.  

Til að byrja með var William Faulkner álitinn vera siðlaus dóni sem skrifaði bækur sem helst máttu ekki sjást en endaði svo með því að fá Nóbelsverðlaunin fyrir bókmenntir árið 1949. Með þessari bók sinni skoðar Haukur hvernig orðspor höfundar verður til og breytist. 

Síðan tengir hann störf Faulkner við menningaruppbyggingu Bandaríkjamanna hér á landi í seinni heimsstyrjöld.  

„Það sem gerir William Faulkner spennandi í íslensku samhengi er að hann kom hingað árið 1955 og öll íslenska menningarelítan beygði sig í duftið fyrir honum,“ segir Haukur. Hingað kom hann til þess að reyna að ná eyrum íslenskra menntamanna sem oftast hneigðust til vinstri og höfðu ekki verið mjög ginnkeyptir fyrir málstað Bandaríkjamanna. Þetta er því stórmerkileg og rammpólitísk saga.  

Spaugilegt að fást við fræðastörf 

Mynd með færslu

„Kannski eru það að einhverju leyti áhrif frá þessari sögu sem ég er að segja í Fulltrúi þess besta, sem er mikil karlabók og mikil karlasaga. Og kannski er ég að gera grín að sjálfum mér að vera inni í þessum heimi þar sem menn elska menn og þrá viðurkenningu hvor annars,“ segir Haukur um titil ljóðabókar sinnar, Menn sem elska menn.  

Haukur segir að oft þegar hann sé að grúska í svona bókum og verkum kvikni alls kyns hugmyndir fyrir hann sjálfan að yrkja um. „Það er stundum bara svo spaugilegt að fást við svona fræðistörf,“ segir hann. „Af hverju er ég, sem á þrjú börn og konu sem þykir vænt um mig, að loka mig inni á skjalasafni í Noregi til þess að vera með einhverju ímynduðu eða löngu dánu fólki?“ 

Sjálfur hefur hann aldrei skilið hvers vegna fólk lítur á fræði og skáldskap sem andstæður, fyrir honum eru þetta bara tvær hliðar á sama peningnum.  

Haukur segir ljóðabókina vera sér mjög persónulega. Miðhluti hennar, „Menn sem elska menn“, er á yfirborðinu frásögn af hugástum Fjölnismanna, þeirra Jónasar Hallgrímssonar og Tómasar Sæmundssonar. „En um leið ástarjátning til mjög góðs vinar sem ég held að hafi þurft smá klapp á bakið eða smá orðsendingu frá öðrum vini,“ segir Haukur.  

Rætt var við Hauk Ingvarsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér að ofan.  

Tengdar fréttir

Menningarefni

Kærleikur var eitthvað sem mig langaði til að boða

Bókmenntir

Ljóð sem valda gæsahúð og umhverfiskvíða

Bókmenntir

Vistarverur – Haukur Ingvarsson