Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Baby Lars ekki allur þar sem hann er séður

Mynd:  / 

Baby Lars ekki allur þar sem hann er séður

14.11.2021 - 22:14

Höfundar

Fimmti þáttur Ófærðar 3 kláraðist í kvöld og sérfræðingar hlaðvarpsins Með Ófærð á heilanum eru þegar búnir að kryfja hvað bar hæst í þættinum. Grínistinn Vilhelm Neto og rithöfundurinn Kamilla Einarsdóttir skiptust á skoðunum í þættinum um alla lausu þræðina í Ófærð 3.

Athugið. Í þessari færslu má finna spilliefni úr Ófærð 3. 

Í nýjasta hlaðvarpsþætti af Með Ófærð á heilanum eru uppi skiptar skoðanir spennuspekinganna um það hversu grimmur mótorhjólatöffarinn Gunnar getur verið. Í upphafi fimmta þáttar má sjá hann sýna Freyju, blaðakonunni í dulargervinu, vægð og sleppa henni ómeiddri þrátt fyrir að Hopper, danski leiðtogi klíkunnar, hafi viljað hana feiga. Með því sýndi Gunnar persónueinkenni sem Kamillu Einarsdóttur, gesti í þættinum, þykir benda til þess að hann hafi ekki í sér getuna til að fremja morð. Þar með sé hann útilokaður frá ódæðisverkinu í upphafi þáttaraðarinnar. 

Freyja beinir aftur á móti sjónum lögreglunnar að Gunnari þegar hún veltir því upp hvort hann geti borið ábyrgð á hvarfi Línu, en enn er ekki ljóst hvort hún sé lífs eða liðin. Gunnar sýnir jafnframt ískyggilega hlið á sér í síðari hluta fimmta þáttar þegar taugaveiklunin og ofsóknaræðið er farið að ná tökum á honum. 

Deilur um yfirráð innan lögreglunnar settu jafnframt svip sinn á þáttinn en þau Vilhelm og Kamilla voru sammála um að Sonja, yfirmaður fíkniefnadeildarinnar, sé eitursvöl og vel að verkinu komin. Þó sé ljóst að deilurnar komi til með að hafa veruleg áhrif á framvindu þáttanna. 

Koma Sverris í litla smábæinn gæti líka haft mikil áhrif á það sem kemur til með að gerast í Ófærð 3, nú þegar þrír þættir eru eftir. 

Baby Lars, mótorhjólakappinn sem leikinn er af Hannesi Óla Ágústssyni, þykir þó hafa tekið umtalsvert meira pláss í þessum fimmta þætti. Svo virðist sem hann gegni mun flóknara hlutverki í mótorhjólaklíkunni en áður var talið og hafi völd til að stýra öðrum meðlimum hennar. Þannig telur Kamilla að hann komi til með að leika mun stærri rullu og beri jafnvel ábyrgð á morðinu á Ívari sem rannsókn lögreglunnar snýst um. Vilhelm Neto segir að það væru sannarlega áhugaverðar vendingar enda styrkti það samband Íslands og Færeyja, en fram kom í þættinum að Baby Lars er færeyingur. 

Með Ófærð á heilanum er hlaðvarpsþáttaröð í umsjón Snærósar Sindradóttur þar sem farið er ofan í saumana á því hvað kemur fram í hverjum þætti Ófærðar og hvaða kenningar eru uppi hverju sinni. Þættina má finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum en einnig í spilara RÚV, strax á eftir frumsýningu Ófærðar hvert sunnudagskvöld á RÚV. 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Leiðinlegt fyrir stelpurnar að hangsa með fúlum Dönum

Sjónvarp

Dulin hómófóbía áhorfenda mögulega að villa fyrir þeim