Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Allar líkur á fjórðu vaxtahækkuninni

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Allar líkur eru á að stýrivextir Seðlabankans hækki í vikunni, fjórða skiptið í röð. Fjármálaráðherra segir að ekki standi til að draga tímabundið úr opinberum álögum til að mæta verðhækkunum.

Sérfræðingar á markaði telja nær öruggt að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækki stýrivexti næstkomandi miðvikudag. Spurningin sé einungis hversu mikið. Þeir hallast að 0,25 prósentustiga hækkun en raunin gæti allt eins orðið 0,5 prósenta hækkun. Stýrivextir hafa nú þegar tvöfaldast síðan í maí, farið úr 0,75 prósentum í 1,5.

Skýringin liggur meðal annars í hröðum efnahagsbata eftir covid.

Bæði Landsbankinn og Íslandsbanki spá því að verðbólga verði um og yfir 5 prósentum næstu misseri sem er töluvert umfram síðustu spá Seðlabankans. Sú staðreynd að næsta vaxtaákvörðun er ekki fyrr en í febrúar eykur líkurnar á að peningastefnunefnd taki stærra skref en ella.

ASÍ og fleiri hafa skorað á stjórnvöld að draga úr álögum á innfluttum nauðsynjavörum til að stemma stigu við verðbólgu og dýrtíð. Fjármálaráðherra segir stöðuna vissulega áhyggjuefni og vonast til að dýrtíðin gangi yfir sem fyrst, en sér ekki tilefni til aðgerða. „Við erum nú ekkert að velta því sérstaklega fyrir okkur. Verðbólgan er ekkert ægileg og það er mjög erfitt að stemma stigu við kostnaðarverðshækkunum í öðrum löndum og alveg eins og við hækkum ekki gjöld þegar bensínverð lækkar þá finnst mér að við eigum ekkert að vera lækka gjöldin þegar bensínverðið hækkar í innflutningi.“

Magnús Geir Eyjólfsson