Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Vegurinn í Árneshrepp mokaður tvisvar í viku í vetur

13.11.2021 - 16:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ákveðið hefur verið að auka snjómokstursþjónustu við Strandaveg í Árneshreppi í vetur. Mokað verður tvisvar í viku frá 5. janúar til 20. mars. Oddviti Árneshrepps segir tíðindin stórkostleg.

 

Hingað til hefur verið mokað eftir svokallaðri G-reglu Vegagerðarinnar. Samkvæmt henni hefur vegurinn einungis verið mokaður tvo daga í viku vor og haust, á meðan snjólétt er. Nú hefur vegurinn verið færður undir F-reglu í tilraunaskyni. Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, segir að nú þurfi íbúar ekki að óttast að lokast inni.

„Það var alveg stórkostlegt að fá þau tíðindi. Maður finnur það hvað þetta hjálpar manni mikið. Nú þarf maður ekki að óttast það að vera lokaður inni. Að öllu venjulegu gætum við fengið mokstur tvisvar í viku, okkur finnst við mjög vel sett með þessa reglu,“ sagði Eva í samtali við Fréttastofu í dag.

Vegurinn hefur ekki verið mokaður á tímabilinu 5. janúar til 20. mars nema hreppurinn hafi borgað helmingamokstur. Eva hafði haft samband við Vegagerðina og óskað eftir mokstri.

„Svo gerist þetta á sama deginum, á fimmtudeginum að það er gefið út að mokað verði tvisvar í viku og það er í fyrsta skipti í sögunni. Þetta er bara stórkostlegt.“

Þá er nýlokinni vinnu við lagningu háspennustrengs til Djúpavíkur. Eva segir þetta fyrsta skrefið í að koma þriggja fasa rafmagni til allra íbúa Árneshrepps.

„Við horfum björt til framtíðar því við vitum að það á að halda áfram með þetta á næsta ári. Þetta verður mikill munur fyrir okkur, það er á hreinu,“ sagði Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti Árneshrepps.
 

 

Andri Magnús Eysteinsson