Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Um 150 skjálftar á Suðurlandi og einn stór við Keili

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Á annað hundrað skjálftar mældust sunnan við Vatnafjöll í nótt, í grennd við Heklu. Sá stærsti var 2,7, en í gær varð þar skjálfti af stærðinni 5,2. Böðvar Sveinsson náttúrvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að vel sé fylgst með svæðinu. Skjálfti yfir 3 að stærð mældist við Keili í nótt.

„Ef við tökum bara nóttina, frá um 7 í gærkvöldi, þá hafa verið 150 skjálftar á því svæði.“

Er sérstakt eftirlit með þessu svæði núna? „Já, við fylgjumst vel með þessu núna. Við beinum sjónum okkar meira að þessu svæði en vanalega.“

En jörð skalf víðar og skömmu eftir klukkan fimm í nótt mældist skjálfti við Keili. Hann var 3,2 að stærð og Veðurstofu hafa borist tilkynningar frá fólki í Borgarnesi, á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjunum sem varð skjálftans vart.

Þetta er stærsti skjálfti sem mælst hefur við Keili í nokkrar vikur. Böðvar segir óvíst að hann þýði að virkni sé að aukast á svæðinu.  „Það þarf ekki að þýða neitt . En þetta er stærsti skjálftinn sem mælist í einhvern tíma, síðan í október.“