
Þýskir Græningjar með bakþanka
Loftslagsmál í forgang
Robert Haveck, einn leiðtoga Græningja, sagði við fjölmiðla í dag að næsta ríkisstjórn þurfi að setja loftslagsmálin í forgang og takmarka hækkun á meðalhita jarðar við eitt og hálft stig. „Ef okkur tekst ekki að koma okkur saman um það hefur okkur mistekist,“ sagði Haveck.
Jafnaðarmenn fengu 206 sæti í kosningunum í september, 53 sætum meira en í kosningunum 2017. Græningjar fengu 118 sæti og Frjálslyndir demókratar 92.
Samanlagt er þetta nokkuð þægilegur meirihluti sæta á þingi og fastlega er búist við því að Olaf Scholz, leiðtogi Jafnaðarmanna, verði næsti kanslari. Stjórnmálaskýrendur í Þýskalandi segja afar ólíklegt að flokkarnir þrír nái ekki saman.
Langlíklegasta stjórnarmynstrið
Flokkarnir þrír funda eftir helgi um þann árangur sem hefur náðst í stjórnarmyndunarviðræðum og ákveða næstu skref. Ef viðræðurnar sigla í strand gæti það leitt af sér erfiða stjórnarkreppu enda fáir aðrir augljósir valkostir í stöðunni.
Fráfarandi stjórnarsamstarf hefur enn meirihluta en Jafnaðarmenn myndu án nokkurs vafa vilja kanslarasætið í slíkri stjórn enda fengu þeir fleiri sæti en Kristilegir demókratar. Samkvæmt Reuters er lítill hljómgrunnur fyrir áframhaldandi samstarfi.
Óánægðir með loftslagsviðræður
Græningjar virðast nokkuð óánægðir með gang viðræðna um loftslagsmál. Ummæli Havecks eru nýjasta dæmið um þessa óánægju en í síðustu viku hvatti flokkuri aðgerðarsinna til þess að þrýsta á Frjálslynda demókrata og Jafnaðarmannaflokkinn að samþykkja róttækari áætlun í loftslagsmálum.
Í bréfi Græningja til aðgerðarsinna, sem var lekið til fjölmiðla, sagði að hinir væntanlegu samstarfsflokkar hafi ekki samþykkt nógu metnaðarfullar loftslagsaðgerðir.