Dmitry Peskov, talsmaður rússnesku stjórnarinnar, sagði í dag á fundi með fréttamönnum að Rússar hefðu staðið við samninga um sölu á gasi til evrópskra neytenda og ætli að gera það áfram. Hann sagði að Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands, hefði ekki borið hótun sína um að skrúfa fyrir gasið undir stjórnvöld í Kreml áður en hann lét hana falla. Yamal-Europe gasleiðslan liggur um Hvíta-Rússland.
Evrópusambandið sakar Lukashenko og stjórn hans um að standa að baki því að þúsundir hælisleitenda hafi að undanförnu reynt að komast frá Hvíta-Rússlandi til Póllands. Þetta er sagt vera gert í hefndarskyni fyrir efnahagslegar refsiaðgerðir sem stjórn hans er beitt. Til greina kemur að herða þær í næstu viku.
Fulltrúar Bandaríkjanna og fimm Evrópuríkja í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fordæmdu í gær þær aðgerðir Hvít-Rússa að flytja þúsundir hælisleitenda frá Miðausturlöndum að landamærum Póllands. Fjórtán þúsund pólskir hermenn og lögreglumenn varna því að fólk komist yfir landamærin.
Evrópusambandið hefur farið þess á leit við á annan tug þjóða að komið verði í veg fyrir að hælisleitendur verði fluttir til Hvíta-Rússlands.
Ríkisflugfélag Hvíta-Rússlands tilkynnti í morgun að Sýrlendingar, Írakar og Jemenar fái ekki að koma til landsins í flugi frá Tyrklandi. Þetta er gert að beiðni tyrkneskra stjórnvalda að sögn AFP-fréttastofunnar.