Ung kínversk kona sem leitað hefur verið að í Reynisfjöru frá því um klukkan þrjú í dag fannst látin á sjötta tímanum. Þrjár aðrar konur féllu einnig í flæðarmálinu en náðu að komast í land.
Lögreglan á Suðurlandi tilkynnti um andlátið nú á sjötta tímanum. Þyrla Landhelgisgæslunnar fann konuna. Lögreglan rannsakar tildrög slyssins.
David Kelley, leiðsögumaður sem var með hóp í Reynisfjöru varð vitni að því þegar brimið í Reynisfjöru hrifsaði til sín unga konu rétt fyrir klukkan þrjú. Í samtali við fréttastofu segist hann hafa verið að taka myndir í fjörunni og sá að þó nokkur fjöldi fólks var neðarlega í flæðarmálinu.
Hann henti frá sér myndavélinin þegar hann sá að fjórar ungar konur lentu í öldurótinu. Þrem tókst að koma sér í land með herkjum en ein drógst út með briminu. Þær voru í stærri hópi ferðamanna í Reynisfjöru. Hann segir að á bilinu 150 til 200 manns hafi verið í fjörunni þegar slysið varð.