
Kolsvört skýrsla um stjórnarhætti á Menntamálastofnun
Stjórnunarhættir sem ógna öryggi og heilsu starfsfólks
Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum, sem Fréttablaðið hefur í sínum fórum, eru sjö af ellefu áhættuþáttum sem skoðaðir eru merktir rauðir, þar á meðal allir áhættuþættir sem viðkoma stjórnun. Rauði liturinn táknar óviðunandi áhættu, sem nauðsynlegt er að bregðast við án tafar.
Fram kemur að þeir stjórnunarhættir sem viðhafðir eru hafi „skapað óæskilegan starfsanda sem ógnar öryggi og heilsu starfsfólks.“
Ofbeldi, kynferðisleg áreitni og einelti
Helmingur starfsfólks telur sig hafa orðið fyrir eða orðið vitni að einelti, kynferðislegri og/eða kynbundinni áreitni eða ofbeldi á vinnustað. Dæmi eru sögð um „alvarlegar afleiðingar [stjórnunarhátta] á sjálfsmynd og lífsánægju starfsfólks.“
Útbreitt vantraust á forstjóranum
Viðtöl við starfsfólk leiði enn fremur í ljós, að meirihluti þess vantreystir forstjóranum, Arnóri Guðmundssyni. Þá herma heimildir Fréttablaðsins að þrír starfsmenn hafi sagt upp störfum „vegna þess sem þeir lýsa sem stjórnunarvanda, stefnuleysi, hentileikastefnu, skorti á yfirsýn yfir verkefni og fjármál og eineltistilburðum forstjórans.“