Íslensku menntaverðlaunin afhent

Mynd: RÚV / RÚV

Íslensku menntaverðlaunin afhent

10.11.2021 - 20:30

Höfundar

Íslensku menntaverðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Þau voru upprunalega stofnuð til að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli á því góða og metnaðarfulla starfi sem stundað er í skólum og frístundastarfi.

Verðlaun fyrir framúrskarandi skólastarf hlaut að þessu sinni Leikskólinn Aðalþing fyrir framsækið, skapandi skólastarf og lýðræðislega starfshætti. Hanna Rún Eiríksdóttir kennari í Klettaskóla var þá verðlaunuð í flokknum framúrskarandi kennari, fyrir framúrskarandi kennslu nemenda með fötlun, meðal annars fyrir að þróa nýjar leiðir til tjáskipta. Framúrskarandi þróunarverkefnið er leiðsagnarnám, þróunarverkefni um eflingu námsmenningar sem stuðlar að aukinni ábyrgð nemenda á eigin námi. Fyrsta árið var vekefnastjórnin í höndum Nönnu Kristínar Christiansen og Eddu Gíslrúnar Kjartansdóttur og voru 17 skólar skráðir til þátttöku.

Hvatningarverðlaunin eru veitt Vöruhúsinu - miðstöð skapandi greina á Hornafirði. Vöruhúsið er einstakur vettvangur til kennslu í nýsköpun, list- og verkgreina á öllum skólastigum. Þar er boðið upp á formlegt og óformlegt nám í handverki, hönnun og hugmyndavinnu, þar sem lögð er áhersla á þverfagleglega samvinnu. Forstöðumaður er Vilhjálmur Magnússon.

Sjónvarpað var frá afhendingunni klukkan átta í kvöld tíunda nóvember á RÚV. Hægt að sjá útsendinguna í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Menntamál

Tilnefningar til íslensku menntaverðlaunanna 2021