Vill fleiri mælikvarða á gæði kennslu

09.11.2021 - 21:29
Gæði kennslu og skólastarfs er eitt af því sem ástæða er til að vinna að, segir Magnús Þór Jónsson, nýkjörinn formaður Kennarasambands Íslands. Hann segir Pisa ágætan mælikvarða en þeir þurfi að vera fleiri til að gera fullt gagn.

„Pisa er klárlega einn af mælikvörðunum,” sagði Magnús Þór í Kastljósi í kvöld og kvað ákveðin sóknarfæri í þeim mælingum. Fleira þyrfti þó að koma til. „Það er kannski skortur á fleiri og öðrum mælikvörðum heldur en Pisa.“

Magnús Þór sagðist hafa kynnst því í Svíþjóð og Englandi hvernig gæði eru metin í skólastarfi. Einnig hefði verið rætt mikið um þessi mál í Reykjavík þar sem hann hefur starfað sem skólastjóri. Magnús Þór sagði að það væri verðugt efni að vinna að gæðamálum í skólum og byggja upp mælikvarða til að meta gæði skólastarfs.

Magnús sagði í viðtali við fréttastofu í dag að nýju fólki fylgi alltaf nýjar áherslur. Hann hafi talað um að formaður gegni meira þjónustuhlutverki fyrir aðildarfélög kennara. Innan Kennarasambandsins sé fólk með ólíkan bakgrunn, leikskólakennarar í litlum sjávarþorpum og framhaldsskólakennarar í þúsund manna skóla. Þetta fólk verði að eiga samleið. „Það er ekkert hjá því komist að kennarar hafa verið að horfa til þess hvort að eitt kennarasamband sé það sem virki fyrir hvert aðildarfélag. Ég væri ekki að bjóða mig fram í þetta embætti nema ætla mér að það verði okkar sameiginlega sýn. Það þarf tíma og það þarf hreinskiptið samtal innan aðildarfélaganna og milli þeirra til að virkja þann kraft sem ég talaði um í byrjun.

Magnús Þór segir að kennarar hafi dregist aftur úr í launakjörum og starfsaðstæður þeirra verði að batna. Hann leggur einnig áherslu á endurskoðun námskrár. Hún sé sú besta sem samin hafi verið á Íslandi en ekki gallalaus. „Það er endalaust samtal á öllum skólastigum að námskrárnar fyrir stigin séu kannski orðnar, þó þær séu ekki gamlar, úreltar og ekki í takt við það sem er í gangi.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV