Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Víðtækt samstarf um rafrænar lausnir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Unnið er að því að koma upp stafrænu umboðsmannakerfi hjá stjórnsýslunni til að tryggja aðgengi aðstandenda að stafrænni þjónustu fyrir hönd þeirra sem geta ekki nýtt hana sjálfir. Um helgina var greint frá því að dæmi séu um að fólk með þroskahömlun hafi ekki aðgang að bankareikningum og frá ungum fötluðum manni sem gat ekki séð niðurstöðu úr COVID-prófi þar sem hann getur ekki fengið rafræn skilríki.

Ágústa Rósa Andrésdóttir, móðir Ólafs Elíasar Harðarsonar, greindi frá því í viðtali við fréttastofu um helgina að sonur hennar gæti ekki fengið rafræn skilríki. Þau svör hafi borist frá Auðkenni að þar sem hann geti ekki fyllt allt út sjálfur, án aðstoðar, þá fái hann engin rafræn skilríki.

Ekki heimilt að gefa út skilríki

Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis, segir rafræn skilríki hönnuð á þeim grunni að sá sem þurfi þau verði að geta beitt þeim alveg sjálfur. Auðkenni hafi ekki heimild til að gefa út skilríki á þann sem ekki er til þess bær og það sé því í höndum þjónustuaðila að veita þeim sem eru með umboð fyrir hönd skjólstæðinga sinna aðgang að þeirra upplýsingum innan sinna kerfa. Líkt og í dæmi Ólafs Elíasar og COVID-prófsins, þá sé það í höndum Landlæknisembættisins að veita umboðsmanni aðgang að upplýsingum á Heilsuveru í gegnum sitt rafræna skilríki. Líkt og foreldrar geta séð upplýsingar um börnin sín inni á vef Heilsuveru.

Landlæknir skipaði starfshóp

Arnaldur F. Axfjörð, verkefnisstjóri öryggismála á miðstöð rafrænna heilbrigðislausna hjá Landlæknisembættinu, segir að þar vinni starfshópur sem fjallar sérstaklega um þá hópa sem einhverra hluta vegna geta ekki nýtt rafræn skilríki sjálfir. Starfshópurinn er í samstarfi við félagsmálaráðuneytið, umboðsmann barna, landssamtökin Þroskahjálp, heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og réttindagæsluna. Aðalmarkmið hópsins var að kortleggja og greina stöðu einstaklinga innan þessara hópa og koma með tillögur að mögulegum leiðum og lausnum til að koma til móts við þá og tryggja örugga rafræna auðkenningu og sannvottun í rafrænni heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Í skýrslu vinnuhópsins frá því í ágúst segir að þróun fjarþjónustu, hvort sem um ræðir heilbrigðisþjónustu eða aðra opinbera þjónustu, hafi verið mjög hröð síðustu misseri og hefur núverandi ástand í þjóðfélaginu vegna COVID-19 haft töluverð áhrif. Sá vandi blasi við að mismununar gæti þar sem ákveðnir hópar hafa helst úr lestinni og vegna kerfislægra þátta hafa þeir ekki jafnan aðgang á við aðra þjóðfélagsþegna inn í ákveðnar þjónustur hjá hinu opinbera. 

Líta verður til þess að forsendur fyrir því að fólk geti ekki notað skilríkin séu mismunandi. Arnaldur segir unnið að umboðslausn hjá Landlæknisembættinu. Nú þegar er til að mynda hægt að fá umboð til þess að fá lyf afhent fyrir annan einstakling í gegnum Heilsuveru. Eins er möguleikinn fyrir hendi að annast mál annarra á síðunni, það er að foreldrar geta annast mál barna sinna. 

Tillögur samstarfshópsins voru kynntar fyrir heilbrigðisráðuneytinu í september. Unnið er að því að koma þeim í formlegt ferli með von um að framtíðarlausn finnist sem uppfyllir bæði öryggiskröfur og þarfir einstaklinga, segir í fréttatilkynningu frá Embætti landlæknis.

Miðlægur umboðsmannagrunnur

Hjá Stafrænu Íslandi er í vinnslu að koma upp stafrænu umboðsmannakerfi, að sögn Andra Heiðars Kristinssonar, framkvæmdastjóra verkefnisins. Kerfið á að tryggja að umboðsmaður geti með rekjanlegum hætti nýtt eigið rafrænt skilríki til auðkenningar og undirritunar fyrir hönd umboðsgjafa. Þá er unnið að því í samstarfi við félagsmálaráðuneytið að koma á sérstökum gagnagrunni sem tengdur verður beint við umboðsmannakerfið. Þar verður haldið miðlægt utan um lögformlega talsmenn þeirra sem ekki geta nýtt sér stafræna þjónustu án aðstoðar. 

Andri Heiðar segir nýja umboðsmannakerfið komið vel áleiðis og gert er ráð fyrir að fyrstu áfangar í þeirri innleiðingu ljúki á fyrstu mánuðum næsta árs. Um leið og þeirri vinnu lýkur verður kerfið tekið í notkun á vefnum Ísland.is. Lengri tíma tekur þó líklega að taka kerfið upp á öðrum stofnunum ríkisins.

Fleiri lausnir til

Arnaldur hjá Landlæknisembættinu segir það góðan kost að embættið gæti tengst gagnagrunninum sem fyrirhugað er að búa til. Þannig verði hægt að tryggja að umboð á Heilsuveru falli í réttar hendur. Þá bendir Arnaldur jafnframt á það að fleiri leiðir séu til þess að nota rafræn skilríki en með farsíma. Á fyrstu árum skilríkjanna voru mörg þeirra tengd við greiðslukort viðkomandi, og einnig er hægt að fá þau á USB-kubbi. Þeir kubbar gætu nýst mörgum sem ekki eiga möguleikann á að nota rafræn skilríki með snjallsímum, til að mynda margt eldra fólk og fólk með ákveðnar hreyfihamlanir. 

Að sögn Arnalds á undir öllum tilvikum að vera hægt að leita til heilsugæslu vegna allrar heilbrigðisþjónustu. Engin þjónusta sé háð Heilsuverunni. Á vefnum Heilsuvera.is er spjallmöguleiki, þar sem fólk á að geta leitað upplýsinga, óháð því hvort það hafi aðgang að eigin síðu inni á vefsíðunni. Heilsuvera.is er samstarfsverkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Embættis landlæknis.