Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Verðhækkun á mat ekki velt út í verðlagið

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Ekki stendur til að velta út í verðlag hér miklum verðhækkunum sem orðið hafa á heimsmarkaði með ýmsa hrávöru eins og sykur, hveiti og kaffi. Þetta segir framkvæmdastjóri Ó. Johnson & Kaaber.

„Það eru vissulega miklar verðhækkanir á hrávörumarkaði sama hvert er litið; kaffi, sykur, hveiti, hrísgrjón, grænmeti. Þannig að þetta er alls staðar í vísitölum í sögulegu hámarki. Það eru ýmsar ástæður. Það er uppskerubrestur víða um heim út af veðurfari, svo eru þessi fraktáhrif, það er líka erfitt að útvega vinnuafl í grunnmatvælaframleiðslu. Þetta er held ég tímabundið ástand. Það er áskorun hjá öllum í aðfangakeðjunni að reyna tempra þessar verðhækkanir sem hugsanlega eru á lofti tímabundið. Ég held að allir séu að takast á við það vandamál, sama hvort það eru framleiðendur, flutningsaðilar, smásalar eða heildsalar,“ segir Ólafur Ó. Johnson, framkvæmdastjóri Ó. Johnson & Kaaber.

Þessum verðhækkunum verði ekki velt beint út í verðlagið.

„Nei, alls ekki og enginn í aðfangakeðjunni, ekki við frekar en framleiðendur og aðrir,“ segir Ólafur.

Í mars í fyrra hafi uppskerubrestur orðið og þar með hafi verð byrjað að hækka.

„Það er ekki enn komið inn í verðlagið. Ég held að allir muni keppast við að tempra það. Þannig að ég hef engar áhyggjur af því að það valdi miklum verðhækkunum,“ segir Ólafur.

Hann telur að ástandið skáni fljótlega á næsta ári. Rætt var um áhrif flutningskostnaðar og hækkandi innkaupaverða á verðlag á fundi á vegum Félags atvinnurekenda í dag.
 

Fréttin hefur verið uppfærð