Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kröfu um verknám sálfræðinga frestað um tvö ár

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Nýútskrifuðum meistaranemum í klínískri sálfræði, sem hafa beðið eftir að geta hafið störf í faginu, verður veitt starfsleyfi á næstu dögum. Þá hefur gildistöku ákvæðis sem gerir kröfu um að nemar fari í verknám verið frestað til 2023. Ákvæðið hefur hlotið töluverða umfjöllun nýverið, í ljósi þess að slíkt verknám er hvergi í boði fyrir sálfræðinema hérlendis.

Heilbrigðisráðuneytið tilkynnti þetta í dag. Gildistöku ákvæðisins hefur iðulega verið frestað frá árinu 2012. Þegar ákvæðið tekur aftur gildi verða því liðin 11 ár frá því það var fyrst sett inn í reglugerðina.

Í tilkynningunni er skýring þess sögð vera skortur á stöðum fyrir skipulagða starfsþjálfun.

„Heilbrigðisráðuneytið telur ljóst að til að koma á fót skipulagðri starfsþjálfun þurfi fleiri aðilar að taka höndum saman um verkefnið og landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu sé réttur vettvangur til þess“ segir í tilkynningunni. Landsráðið var skipað í maí og er skipað aðilum tengdum heilbrigðisþjónustu, sem og fulltrúum menntastofnana.