Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

ZÖE – Shook

Mynd: Skjáskot / Myndband

ZÖE – Shook

08.11.2021 - 16:55

Höfundar

Fyrsta sólólata ZÖE, platan Shook, kemur út á föstudaginn. ZÖE er bandarísk tónlistarkona og upptökustjóri sem hefur verið búsett á Íslandi undanfarin ár. Umfjöllunarefnið á Shook að hennar sögn ekkert léttmeti. Á þessari 15 laga plötu gerir hún upp margra ára ofbeldissamband, hvernig það braut hana niður andlega og styrkinn sem þurfti til að brjótast út úr slíkum aðstæðum.

Zoe-Ruth Erwin steig sín fyrstu skref í tónlistarbransanum sem forsprakki hljómsveitarinnar Little Red Lung fyrir rúmum áratug. Sú sveit sendi frá sér tvær plötur sem fengu ágæta umfjöllun og spilun á streymisveitum auk þess að koma fram í sjónvarpsþáttum og fá útvarpsspilun hjá NPR og fleirum.

Leið ZÖE lá síðan í ferðalag til Íslands sem átti að standa í nokkrar vikur en teygðist í annan endann. Ferðalagið hugsaði hún aðallega til að láta reyna á að semja og flytja sína tónlist hundrað prósent á eigin forsendum.

Fimm árum síðar býr hún ZÖE enn á Íslandi þar sem hún hefur dundað sér við eitt og annað og meðal annars starfað sem umboðsmaður Mezzoforte, samið og sungið titillag myndarinnar Lof mér að falla og rekið sitt eigið stúdíó, Studio River, þar sem hún stýrir upptökum og aðstoðar annað tónlistarfólk við að finna hinn rétta tón.

Plata vikunnar að þessu sinni er plata ZÖE, Shook, sem kemur út á föstudag, en verður spiluð í heild sinni eftir tíufréttir í kvöld á Rás 2 ásamt kynningum Zoe-Ruth Erwin.