Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Útópía er sleipt hugtak

Mynd: Melkorka / Melkorka

Útópía er sleipt hugtak

08.11.2021 - 17:00

Höfundar

Umfjöllun um mótsagnakennda femíníska útópíu bandaríska rithöfundarins Charlotte Perkins Gilman, sem leit dagsins ljós fyrir meira en öld síðan.

„Og þó, þar sem ég horfði framan í þær, frá einu andliti til annars, rólegar, alvarlegar, vitrar og algjörlega óttalausar, fullvissar og ákveðnar, fann ég undarlega tilfinningu - mjög gamla tilfinningu - tilfinningu sem ég rakti aftar og aftar í minningu mína þangað til ég þekkti hana loksins. Þetta var sú vonlausa tilfinning sem ég fann þegar ég vissi að ég væri að gera eitthvað rangt, nokkuð sem ég hafði oft fundið fyrir í barnæsku þegar stuttir fæturnir megnuðu ekki að sigrast á þeirri staðreynd að ég var seinn í skólann. Okkur leið öllum eins og litlum strákum, mjög litlum strákum, sem höfðu verið gripnir glóðvolgir við skammarstrik á heimili höfðinglegrar konu.“

Þegar kemur að bókmenntum hljómar hugtakið „femínísk útópía“ eins og það sé frekar nýtt af nálinni, en þótt ótrúlegt megi virðast leit slíkt verk dagsins ljós fyrir meira öld síðan. Árið 1915 birtist framhaldssagan Herland í tímaritinu The Forerunner í New York. Höfundurinn, Charlotte Perkins Gilman, er ef til vill þekktust fyrir smásögu sína Gula veggfóðrið þar sem hún sótti innblástur í reynslu sína af erfiðu fæðingarþunglyndi. Herland, eða Hennar-land er hins vegar femínísk útópía í 12 köflum, en auk þess að vera höfundur verksins stóð hún einnig að útgáfu tímaritsins sem það birtist í, ritstýrði því og skrifaði allar greinar þess, frá árinu 1909-1916. 

Sagan er sögð frá sjónarhóli þriggja bandarískra karlmanna, þeirra Van, Terry og Jeff, sem leggja í könnunarleiðangur til að kortleggja náttúrulegt umhverfi frumbyggja. Á leiðangri sínum heyra þeir sögur af ógnvænlegu og dularfullu landi kvenna í nokkurra dagleiða fjarlægð, þar sem búi einungis konur og stúlkubörn. Orðrómurinn vekur áhuga ferðalanganna, sem ákveða að komast að því hvort um þjóðsögu eða raunverulegan stað sé að ræða. Til að gera langa sögu stutta finna ferðamennirnir þrír landið að lokum, sem sannarlega er til.

Útópían er í eðli sínu ímynduð
 

„Þetta fékk mig til að skilja að það sem við köllum „kvenlegan þokka“ er alls ekki kvenlegt eftir allt saman, heldur aðeins endurspeglun á karlmennskunni - þróuð til þess að þóknast okkur vegna þess að þær þurftu að þóknast okkur, en ekki með neinu móti nauðsynlegur.“ 

Landið sem karlmennirnir finna er eins og áður segir einungis byggt konum og konur eru auk þess einu stjórnendurnir. Hér kemur til skjalanna sá þáttur bókarinnar sem helst minnir á vísindaskáldsögu, en vegna þess að karlkynið er einfaldlega ekki til staðar fjölga konurnar í Herland sér sjálfar með kynlausri æxlun, og eignast eingöngu stúlkubörn. Herland er þó ekki vísindaskáldsaga, heldur allegórísk útópía sem þarf ekki að vera í takt við lögmál raunveruleikans. Upprunalega merkir orðið útópía jú ,,staðleysa,“ staður sem ekki er til. Útópían er því í eðli sínu ímynduð. 

Í anda hinnar útópísku bókmenntahefðar leiða stjórnendur hins friðsæla kvennaríkis gestina þrjá í gegnum helstu þætti samfélags síns, en þannig gagnrýnir Gilman um leið sitt eigið samfélag og sýnir fram á möguleika til endurbóta. Það sem blasir við í Herland er hins vegar andstæða ójöfnuðarins sem Gilman þekkti sjálf: Þar eru engin stríð, engin afbrot, ekkert hungur, engin sóun, enginn hégómi, engin afbrýðisemi og heldur engin hjartasorg. Konurnar starfa samhæfðar sem ein stór þriggja milljón kvenna fjölskylda. Allar hljóta þær menntun og stöðug efnahagsleg og félagsleg framþróun er forgangsatriði. 

Með þessu leggur Gilman til að heimur sem aðeins væri byggður konum myndi ekki bara ganga upp, heldur yrði hann flekklaus sósíalísk útópía. Og að það sé enn fremur einmitt fjarvera karlmanna sem geri slíka útópíu mögulega:

 

„Sjáðu til, þær skorti kynhvötina, og með henni fór líka afbrýðisemin. Þær höfðu engar stríðandi þjóðir, enga yfirstétt, enga misskiptingu auðs. Þessar stæðilegu hreinu meyjar höfðu enga karlmenn til að óttast og þar af leiðandi enga þörf til að verja sig.“ 

Hér langar mig að staldra við. Með „útrýmingu kynhvatarinnar“ er eins og Gilman útiloki að konur geti orðið ástfangnar hvor af annarri. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að margir telja að Gilman hafi sjálf átt í ástarsambandi við aðra konu. Hér verðum við samt að hafa útgáfuárið hugfast, því árið 1915 voru takmörk fyrir því sem jafnvel róttækustu femínistar gátu leyft sér að segja. 

Portrait of Charlotte Perkins Gilman, circa 1896. (Photo by Fotosearch/Getty Images).
Charlotte Perkins Gilman

Aftur á móti inniheldur Herland ýmsar hugmyndir sem verða að teljast framúrstefnulegar fyrir útgáfuárið. Allar konurnar í Herland eru grænmetisætur og þær drekka heldur ekki kúamjólk. Þær eru því nánast vegan. Auk þess leggja þær mikla áherslu á sjálfbærni og umhverfisvernd. Öllum matarafgöngum, jurtaúrgangi og efni úr skolpræsakerfinu er skilað aftur í jörðina og síðan er það endurunnið. 

Andstætt samfélagi karlanna einkennist Herland af áherslu á hagsmuni heildarinnar. Hver kona uppfyllir sínar skyldur og sinnir sínum verkefnum í þágu samfélagsins, í samræmi við hæfileika sína og áhugamál. Hugmyndin um einkaeign er þeim algjörlega framandi, því þær deila heimilum og verðmætum. Uppeldi er álitið sameiginlegt verkefni og stúlkubörnin eru alin upp af samfélaginu í heild, en ekki af líffræðilegum mæðrum sínum. 

Myrku hliðar útópíunnar
 

Lífið í Herland er þó ekki eintómur dans á rósum, heldur á það sér myrkari hliðar. Samfélag kvennanna er nefnilega ekki án stigveldis. Sumar konur eru álitnar hæfari en aðrar, og því álitlegri kostir til að eignast börn. Þær konur sem eru álitnar „vanhæfar” eru hins vegar hvattar til að fjölga sér ekki. 

Herland á sér mjög ónotalega vídd sem er til marks um rasískar kynbótahugmyndir höfundarins. Gilman hafði sterkar skoðanir á því hverjir mættu fjölga sér og hverjir ekki og skrifaði iðulega um það í bandarísk tímarit, en meðal annars talaði hún fyrir notkun getnaðarvarna til „jákvæðra kynbóta.“ Hún var ötull stuðningsmaður lagasetninga um ófrjósemisaðgerðir, sem hún taldi mikilvægar til að hindra fólksfjölgun meðal kvenna af verkamannastétt, svartra kvenna, fatlaðra kvenna og vændiskvenna.

Rasískar hugmyndir höfundarins skína í gegn í textanum. Konurnar í Herland virðast hrifnar af hugmyndinni um ,„óspillta” æxlun, en auk þess er þeim lýst sem hvítum aríum. Það er þó ekki bara kynþátturinn sem skiptir máli þegar kemur að óspilltri æxlun. Karlmennirnir þrír læra að í fortíð landsins hafi verið til „vanhæfar” konur með „slæma eiginleika,” einkum það sem konurnar kalla „óhóflega sjálfselsku.“ Þær hafi þó fundið lausn á vandamálinu: Þessar konur, hinar svokölluðu „lægstu gerðir,“ hafi einfaldlega verið „ræktaðar burt.“

Í mínum skilningi vísar „óhófleg sjálfselska” til uppreisnargjarnra einstaklinga, þeirra kvenna sem höfðu sterkt einstaklingseðli og persónulegar skoðanir á því hvernig samfélaginu skyldi stjórnað. Í Herland er þeim konum sem hafa einstaklingsbundnar þarfir eða skoðanir einfaldlega útrýmt.

Það er einnig sérstaklega tekið fram að konurnar í Herland eru hárlausar í framan. Af hverju Gilman fannst það skipta máli í hinni útópísku heimsmynd er erfitt að segja. Þetta gefur í skyn að konur þurfi að uppfylla ákveðin og þröng skilyrði til þess að falla inn í hið útópíska módel konunnar. Þær eiga að vera yfirvegaðar, samvinnuþýðar, hvítar, líkamlega heilbrigðar og þar að auki hárlausar í framan. 

Þó Gilman hafi verið lofuð sem framsýnn femínisti hafa margir lesendur hennar sett spurningamerki við þessa þætti sögunnar. Í dag þykir femínismi hennar kominn til ára sinna, mótsagnakenndur og byggður á mismunun, í senn róttækur og afturhaldssamur.

Mynd með færslu
 Mynd: The Poem of the Soul-Louis Janmo - literary hub

Sjónarhornið ræður úrslitum

Það er ekki ætlun mín með þessum pistli að gagnrýna Gilman um of, þó vissulega beri að taka forkastanlegar skoðanir hennar á kynbótum með í reikninginn. Í lok bókarinnar tekur hún hins vegar afstöðu gegn kynferðislegu ofbeldi, því þegar einn ferðamannanna ætlar sér að taka hina ungu Alimu með valdi eru þeir allir þrír umsvifalaust sendir heim. Það er tilraun til nauðgunar sem gerir lokaútslagið og mennina þrjá óvelkomna í Hennarlandi. 

Eftir að Herland birtist í The Forerunner lá verkið lengi í gleymsku. Það var ekki fyrr en fyrrnefnd smásaga Gilman, Gula veggfóðrið, var endurprentuð árið 1973 sem önnur verk hennar fóru að vekja forvitni fræðimanna. Að Gula veggfóðrinu ætla ég einmitt að víkja í næsta innslagi mínu hér í Orð um bækur. 

Útópía er sleipt hugtak, og oft er skammt á milli útópíunnar og dystópíunnar, hins fullkomna og ófullkomna samfélags. Gráa svæðið á milli þessara heimssýna er gjarnan bara spurning um sjónarhorn. Ég ætla að ljúka þessu innslagi á lýsandi tilvitnun í bókina sjálfa: „Jafnvel í Hennarlandi átti mannssálin sér sínar myrku stundir.“

Innslagið má heyra í heild sinni hér að ofan

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Konur skulu þegja á safnaðarsamkomum“

Menningarefni

Vitleysan er sannleikanum samkvæm

Menningarefni

Er heimsendir í nánd?