
Útfærsla bóta fyrir brot kirkjunnar tilkynnt í dag
Biskuparnir hafa undanfarna daga fundað fyrir luktum dyrum í borginni Lourdes. Niðurstaða rannsóknarskýrslu sem gefin var út í byrjun október er að starfsmenn kirkjunnar brutu gegn 216.000 börnum allt frá árinu 1950.
Skýrslan rauf þann þagnarhjúp sem umlukið hafði brotin en biskuparnir viðurkenndu ábyrgð kirkjunnar vegna þeirra síðastliðinn föstudag.
Nú er þrýst mjög á kirkjunnar menn að greina frá í þaula hvernig þeir hyggjast bæta fyrir brotin og eins hvaða ráðstafanir kirkjan geri til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig.
Skýrsluhöfundar bentu á 45 leiðir til úrbóta og í orðum biskupa hefur komið fram að tillögur þeirra verði nánari útfærsla á þeim. Auk þess er því heitið að allir fái bætur þótt mál teljist fyrnd lögum samkvæmt en fyrstu bæturnar verða greiddar á næsta ári.