
Rændu strætisvagni og kveiktu í honum
Breska ríkisútvarpið greinir frá málinu en mennirnir fjórir ruddust inn í vagninn skömmu fyrir klukkan átta í kvöld, skipuðu ökumanni og farþegum að stíga út og báru þá eld að honum.
Strætisvagninn er gerónýtur en engan sakaði að sögn lögreglu. Þetta er í annað sinn á einni viku sem sambærilegur atburður á sér stað á Norður-Írlandi.
Í fyrra tilfellinu segjast vitni hafa heyrt árásarmennina muldra eitthvað um bókunina um Norður-Írland sem á að tryggja opin landamæri til lýðveldisins Írlands.
Nichola Mallon, innviðaráðherra á Norður-Írlandi, segir árásir á almenningssamgöngur vera andstyggilegar og aðför að almenningi. Fólk eigi að geta ferðast til vinnu og hvert á land sem er annað óttalaust.
Stjórnmálamenn á Norður-Írlandi eru fullir vandlætingar yfir málinu og segja atferli af þessu tagi ekki skila nokkrum ávinningi.
Stjórnendur strætisvagnafyrirtækisins og forsvarsmenn stéttarfélags bílstjóra hafa sammælst um að gera allt sem í þeirra valdi stendur að svipað hendi ekki aftur.