Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óttast um afdrif Afgana þegar veturinn skellur á

08.11.2021 - 19:25
Mynd: EPA-EFE / EPA-EFE
95 prósent Afgana fá ekki nóg að borða og hungursneyð blasir við. Talið er að á fjórðu milljón manna séu á vergangi í landinu og óttast er um af afdrif þeirra þegar veturinn skellur á. 

Átök hafa geisað í Afganistan í meira en fjóra áratugi og hafa milljónir neyðst til að flýja heimili sín. Í ágúst var áætlað að þrjár og hálf milljón væru þar á vergangi. Þeim fjölgaði mikið á árinu eftir að Talibanar lögðu undir sig hvert landsvæðið á fætur öðru og að lokum höfuðborgina Kabúl. Margir höfðu flúið þangað og hefst fjöldi fjölskyldna við í tjöldum. Hjálparsamtök styrkja fólk til að snúa aftur á landsbyggðina og eins til að lifa veturinn af. Hann nálgast og þá getur frostið orðið tuttugu og fimm gráður.  

„Eins og þið vitið hefur kólnað í veðri og þau sem hrakist hafa að heiman voru af fúsum vilja flutt til nýrra staða. Við ætlum að útvega sex þúsund fjölskyldum mat og vetraraðstoð í ýmsum héruðum,“ segir Amjad Safi, yfirmaður Union Aid Institute í Afganistan.

Efnahagurinn hefur verið í rúst síðan að Talibanar náðu völdum í ágúst. Þá hafa þurrkar haft áhrif á uppskeru. Fjölmörg ríki hafa dregið úr eða hætt fjárstuðningi til stjórnvalda og því hafa margir Afganar ekki fengið greidd laun. Matvælahjálp Sameinuðu þjóðanna undirbýr neyðaraðstoð og hvetur yfirmaður hennar, David Beasley, ríki heims og auðmenn til að leggja sitt af mörkum. „Í Afganistan eru næstum 23 milljónir manna nálægt sulti, 8,7 milljónir eru á mörkum hungursneyðar. 95 prósent þjóðarinnar fær ekki nógan mat. Þetta er neyð, mikil neyð.“