Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íslendingar fegnir að komast vestur um haf

Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Tuttugu mánaða lokun landamæra Bandaríkjanna lauk í dag þegar bólusettum ferðamönnum var hleypt inn í landið. Íslendingar sem fóru utan í dag voru ánægðir að geta loks hitt ný barnabörn og gengið frá fasteignum sínum.

Í dag voru fimm flug frá Keflavíkurflugvelli til Bandaríkjanna og öll með Icelandair. Hingað til hafa Íslendingar ekki komist nema með undanþágum; fólk að vinna og í námi eða slíkt. En nú komast allir ef þeir uppfylla skilyrðin.

Á leið til að sjá nýja barnabarnið og að létta undir með foreldrunum

Eruð þið að nýta tækifærið nú þegar búið er að opna?
„Já, þetta er náttúrulega búið að standa til lengi þannig að það er gott að komast núna,“ segir Chien Tai Shill.

Eru það einhverjir sem þið ætlið að heimsækja eða eitthvað slíkt?
„Já, ég er að aðstoða son minn og tengdadóttur með litla barnið.“

Þau bíða örugglega spennt eftir þér?
„Já, þetta er búið að vera langt og strangt hjá þeim að hafa ekki aðstoðina sem var búið að reikna með að hafa nú í haust.“

Þau eru í námi sem sagt?
„Já, þau eru bæði í námi,“ segir Chien Tai. 

Ná loks að ganga frá íbúðinni sem seld var í fyrra

Ragnheiður Gyða Ragnarsdóttir var á leið til Flórída að ganga frá málum og að komast í smá frí. 
„Foreldrar mínir seldu íbúð í fyrra, bara ganga frá geymslunni.“

Þið hafið ekkert komist þótt íbúðin sé löngu seld?
„Nei, við máttum ekkert fara út seinasta haust þó að við værum að selja fasteign þ.a. við erum bara fyrst núna að komast.“

Aðeins skárra veður?
„Já, bara pínu,“ segir Ragnheiður Gyða og á auðvitað við að veðrið á Flórída er eitthvað aðeins meira en pínulítið betra. 
 

Á leið í heilt hverfi Íslendinga á Flórída

Sigurbjörg Björgvins var á leið með minni sínum til Orlando í fjórar vikur.

Þá eru væntanlega Íslendingar að flykkjast til Flórída því þeir dvelja þar margir? „Já, mjög margir þar sem við erum, alveg heilt hverfi“ segir Sigurbjörg. 

Á réttri leið hjá Icelandair

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group segir að um leið og dagsetgningin 8. nóvember hafi legið fyrir hafi komið kippur í bókanir.

„Við erum núna með 11 áfangastaði í Norður-Ameríku; tíu í Bandaríkjunum og einn í Kanada á fjórða ársfjórðungi í sölu og erum aðeins að bæta í eftir því hvernig flæðið er. Þetta er ekki alveg orðið venjulegt en svona miklu betra ástand heldur en er búið að vera í gegnum covid má segja þannig að við erum komin á betri stað núna heldur en við vorum fyrir einhverjum mánuðum síðan. Þetta er allt saman á jákvæðan veg.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Nóg að gera við fluginnritun.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV