Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Gasstreymi bendir til að kvika sé enn á hreyfingu

Mynd með færslu
 Mynd: Matthias Vogt - Volcano Heli
Mjög ólíklegt telst að aftur fari að gjósa úr eldstöðinni við Fagradalsfjall, segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði. Engin kvika hefur komið úr gígnum í um tvo mánuði. Þorvaldur segir gasið sem þó streymi úr gígnum af og til bendi til þess að enn sé kvika á hreyfingu undir eldstöðinni.

„Ég get ekki afskrifað þetta ennþá,“ sagði Þorvaldur í Morgunútvarpinu á Rás 2 um hvort hann teldi komið að goslokum við Fagradalsfjall.

Veðurstofan hefur það hlutverk að lýsa yfir goslokum en hefur sagt að það verði ekki fyrr en eftir að minnsta kosti þriggja mánaða goshlé.

En eru einhverjar líkur á því að gosið fari aftur af stað?

„Mér finnst það nú frekar litlar líkur,“ segir Þorvaldur. „Það koma svona púlsar eða hrinur af gösum úr gígnum. Það koma dagar sem er eiginlega ekki neitt og svo eru dagar þar sem verulegt gas er að koma upp. Það bendir til þess að það sé ennþá einhver hreyfing á  kviku upp við gosrásina, það sé fersk kvika að koma nálægt yfirborði og valda því að gasið streymir þarna svona af og til upp úr gígnum.“