Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Leiðinlegt fyrir stelpurnar að hangsa með fúlum Dönum

Mynd:  / 

Leiðinlegt fyrir stelpurnar að hangsa með fúlum Dönum

07.11.2021 - 21:43

Höfundar

Það vekur athygli viðmælenda hlaðvarpsins Með Ófærð á heilanum hve fagrir og smekklegir meðlimir költsins eru annars vegar og mótorhjólagengisins hins vegar í Ófærð. Þeim er lýst sem Farmers market költi og fallegasta mótorhjólagengi sem sést hefur þó ekki virðist sem þau skemmti sér eins vel og þau eru hugguleg. Varúð: Þessi færsla inniheldur spilliefni úr fjórða þætti Ófærðar.

Fjórði þáttur Ófærðar var sýndur á RÚV í kvöld og að venju gekk á ýmsu. Snorri sannfærði Hákon um að vera enn hjá stórfjölskyldunni en hann tók líka fram fyrir hendurnar á Oddi með einhverskonar öryggisgæslu fyrir költið. Andri Ólafsson er hissa á því að vinahópurinn sem missti vinkonu sína við dularfullar aðstæður sé nú vaxinn úr grasi sem reitt fullorðið fólk en tengdaföður hans þykir staðan kunnugleg. Sonja er glæný persóna í þáttunum  og Sverrir snýr heim. Hann er uppljóstrari hjá lögreglunni en ómögulegt er að segja hvað hann fær nákvæmlega út úr því að svíkja kærastann sinn Berg sem lifir fíkniefnabarónslífi í flottri villu. Í hlaðvarpsþættinum Með Ófærð á heilanum fékk Snærós Sindradóttir til sín þau Lóu Hjálmtýsdóttur og Atla Fannar Bjarkason til að ræða um þáttinn. Umræðurnar voru að vanda ansi fjörlegar.

Gaman að sjá leikara og tónlistarmenn fá vinnu í COVID

Serían er hálfnuð og enn eru að koma inn nýir karakterar, þeirr á meðal fíkniefnalögreglukonan Sonja. Atli segir að hún sé grjótharður karakter. „Hún kom einhvernveginn inn og byrjaði að tuska menn til. En maður þarf að fara að horfa á þáttinn með smá nafnalista til að fletta upp persónum.“ Lóa er glöð að sjá hve karakterarnir eru margir því hún segir að leikurum og tónlistarmenn hafi sannarlega átt skilið á fá vinnu í heimsfaraldri. „Ég er svo ánægð að svona margir fengu vinnu á þessum tíma,“ segir hún. „Já, mikið af tónlistarmönnum sem ekki fengu gitt eru allt í einu komnir í aukahlutverk,“ tekur Atli undir.

Minna púður sett í rannsókn á morðmáli en fíkniefnasmygli

Það vakti athygli hve mikið púður lögreglan setur í fíkniefnamál á kostnað morðrannsóknar. Sonja kom inn sem stormsveipur og stoppaði yfirheyrslu og þau hin voru ansi lúpuleg í bílnum þegar þau máttu ekki tala við Gunnar. Atli segir að það að vera lögreglumaður í þessum málaflokkum sé mikil jafnvægislist. „Það má ekki vaða í ákveðna menn til að raska ekki jafnvægi annarsstaðar,“ segir hann. Lóa bendir á að kannski þyki morðmálið síður mikilvægt þegar fórnarlambið sé undur maður í sértrúarsöfnuði, góðkunningi lögreglu sem glímt hafi við fíknivanda. Þess vegna falli dauði hans kannski í skuggann á öðru máli og „þá sé hann lágt rankaður sem mikilvægt morðmál. Að hann væri settur á einhverjar aftari hellur og að hagsmunir lögreglu liggi meira í þessu samnorræna fíkniefnabösti,“ segir hún.

Saknaði þess að hafa meiri samúð með hinum myrta

Atli tekur undir og segir að það sé góður punktur. „Auðvitað vonar maður að það sé ekki þannig en það gæti verið. Í þessu samhengi var ég líka að pæla í þessu út frá þáttunum sjálfum,“ bætir hann við. „Stundum saknaði ég þess að hafa meiri samúð með þeim myrta til að vera betur fjárfestur í söguna. En kannski er ég bara vandamálið, að út af því að hann er eins og hann er þá sé ég ekki að finna til með honum. Kannski varstu bara að benda á það.“

Jóhann Kristófer er frændi og manneskja

Lóa segir að það hafi reyndar verið óvart og að hún komist ekki hjá því að líta á manninn sem manneskju því hann er leikinn af Jóhanni Kristófer tónlistarmanni, leikstjóra og leikara sem margir þekkja vel. Atli tekur líka undir þann punkt enda þekkir hann leikarann ansi vel sjálfur. „Já, hann er frændi minn líka. Ég skil ekki alveg hvað er að mér!“ Hann er ekki frændi Lóu en ekki mjög fjarri því. „Ég lít á hann sem litla frænda minn.“

Haraldur Ari ljúfur maður en trúverðugur fáviti

Jóhann Kristófer er kannski ekki blóðskyldur Lóu en hann á mörg skyldmenni fyrir utan Atla Fannar og meðal annars leikur eitt þeirra, bróðir hans Haraldur Ari, í þáttunum með honum. Atli segir að hans frammistaða sé eftirtektarverð ekki síst fyrir þær sakir að svo ljúfur maður geti túlkað slíkt illmenni á sannfærandi hátt. „Hann er svo ótrúlega næs gaur en góður í að vera í hlutverki þess vonda, eða stráksins sem hefur farið af leið. Hann er trúverðugur fáviti,“ segir Atli.

Allir svo fallegir í költinu og genginu

Í þessari fjórðu seríu er eins og áhorfendur vita mikill titringur á milli mótorhjólagengisins og trúarköltsins eða stórfjölskyldunnar. Lóa segir að það sé ansi spaugilegt hve smekklegir og fallegir allir séu í þessum stríðandi fylkingum. „Þetta lítur smá út eins og Farmers Market költ sem mér finnst alveg ógeðslega fyndið,“ segir hún. „Ég bara: af hverju eru allir fallegir í flottum mussum?“ Atli tekur undir: „Þegar mótorhjólagengið kom, bara þetta er fallegasta mótorhjólagengi sem maður hefur séð.“

Undarlega smekkleg lógó

Lóa bendir einnig á hvað þau séu smekkleg og til dæmis lógóið þeirra sé fallega hannað, bæði hjá mótorhjólatöffurunum og jógahippunum. „Lógóið sem Gunnar er með á öxlinni og lógóið á fánanum hjá költinu, stórfjölskyldunni, það er eins og sami hönnuður hafi verið að verki og þetta er rosalega smekklegt,“ segir hún. „Ég var svo fegin þegar ég sá einhvern hreysikött á veggnum hjá mótorhjólaklúbbnum því ég var bara já er þetta kannski meira mótorhjólaklúbbalógó? Það er ekkert eitthvað svona: Við ætlum að fara í grunnformið.“ Atli er sammála og segir að það sé virðist vera sem báðir hópar hafi farið í gegnum heilmikla ímyndarsköpun og leitað til stofu.

Glatað fyrir stelpurnar að hanga og bíða með fúlum dönum

Mótorhjólagengið virðist annars verja mestum tíma í að sitja og drekka og bíða eftir einhverju heilu dagana. Lóu þykir líf þeirra oft virðast ansi óspennandi. „Ég var einmitt að hugsa út frá stelpunni í vinahópnum, Elísabetu. Ég var að sjá þetta með hennar augum þegar hún horfði yfir salinn og ég var bara vá hvað þetta er leiðinlegt. Að sitja í steypukjallara með einhverjum fúlum dönum.“

Þáttastjórnandi segir að þeirri kenningu hafi verið varpað fram að stórfjölskyldan sé sjálf að framleiða fíkniefni í Hvalfirði þar sem þau hafi til dæmis sést vera að hengja upp þurrkuð blóm. „Það væri gott twist ef þau væru að framleiða amfetamín en smá bömmer ef það væri issjú að þau væru að rækta mikið af grasi,“ segir hann.

Snærós Sindradóttir ræddi við Atla Fannar Bjarkason og Lóu Hjálmtýsdóttur í þættinum Með Ófærð á heilanum sem nú er fáanlegur í öllum helstu streymisveitum og hér í spilara RÚV.is.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Dulin hómófóbía áhorfenda mögulega að villa fyrir þeim

Sjónvarp

Balti á það til að henda inn hipp og kúl tónlistarfólki