Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kynlífsbrask í neonlýstum Lundúnum

Mynd: Universal / Universal

Kynlífsbrask í neonlýstum Lundúnum

07.11.2021 - 11:09

Höfundar

Það eru helst til of margir boltar á lofti í kvikmyndinni Last Night in Soho, þar sem leikstjórinn Edgar Wright vinnur með fræga ítalska hryllingsmyndahefð, segir Gunnar Ragnarsson gagnrýnandi. Myndin sé þó skemmtilegt ferðalag sem ætti að höfða til hryllingsmyndaunnenda.

Gunnar Ragnarsson skrifar:

Breski leikstjórinn Edgar Wright er með skemmtilegri popphöfundum draumaverksmiðjunnar undanfarna áratugi. Myndir hans einkennast jafnan af mikilli kímni og leikgleði og ná hæstu hæðum í mögnuðu samspili hins sjónræna (klipping og kvikmyndataka) við hljóðræna þætti (tónlist og hljóð innan söguheims). Bresku greinagrínmyndir hans, Shaun of the Dead (2004) og Hot Fuzz (2007) eru sprúðlandi fjör, og ofgnótt og hraða óx ásmegin í amerískum hasar Scott Pilgrim vs. the World (2010) og Baby Driver (2017). Hægt væri álasa Wright fyrir að einblína á form á kostnað innihalds og er það á köflum tilfellið með nýjustu kvikmynd hans. Last Night in Soho er gölluð en skemmtileg kvikmynd sem sýnir fram á helstu styrki og galla Wrights sem leikstjóra.

Tímaflakk, fortíðarþrá og konur á barmi taugaáfalls

Í handritinu er haldið helst til of mörgum boltum á lofti og eru nokkrar persónur og þemu smættaðar niður í of einfaldar og tvívíðar myndir. Ung söguhetja, Eloise eða Ellie Turner, er upprennandi fatahönnuður sem hlýtur inngöngu í tískuakademíu Lundúnarborgar í upphafi myndar. Hún hefur alist upp í sveitum Cornwall hjá ömmu sinni, en móðir hennar, sem einnig nam fatahönnun í höfuðborginni, tók eigið líf þegar Ellie var sjö ára. Ellie hefur þó náðargáfu - hún virðist í sérstöku sambandi við lifendur og liðna og hið yfirnáttúrulega. Náið samband við ömmuna, og þrá eftir móðurinni, hefur valdið því að Ellie er með sjöunda áratuginn á heilanum – hún hlustar á söngkonur eins og Dusty Springfield og Merseybít og elskar litrík „retró“ föt. Þegar til Lundúna er komið er ungæðislegur andinn á heimavistinni of yfirþyrmandi og Ellie ákveður að leigja gamaldags kytru hjá eldri konu í Soho. Á nóttunni hverfur hún í draumaheim sinn, Lundúnir sjöunda áratugarins, þar sem hún verður skuggi Sandie, ungrar söngkonu sem reynir að hasla sér völl í skemmtanabransanum. Draumurinn verður þó fljótt að martröð.

Hér er margt í gangi og ólík frásagnarstef að finna. Sagan um sveitastúlkuna sem heldur í „borg óttans“, er þekkt minni sem var meðal annars áberandi í breskum kvikmyndum á sjöunda áratugnum. Þetta er einnig tímaflakkssaga, neikvæð Midnight in Paris (2011) í öskubuskubúningi, þar sem flett er ofan af fortíðarþrá og rómantík og flóknari mynd kemur í ljós. Enn einn þráðurinn er um kvenpersónu á barmi taugaáfalls eða geðrofs, þar sem mörk  milli efnisheims og hins ímyndaða verður óðum óljósara. Þegar kvikmyndir af þeirri gerð ná flugi, t.a.m. Persona (1966) Ingmars Bergmans og Fire Walk With Me (1992) eftir David Lynch, afmá þær mun hins huglæga og hlutlæga í sjónarhorni og áhorfandi verður einn með ferðalagi aðalpersónunnar um hugarheima. Myndlíkingin af Ellie að horfa á Sandie að dansa í sexunni er sterk og endurspeglar gægjuþörf áhorfandans, en geðrænt ferðalag aðalpersónunnar er einum of fjarlægt út af áherslu á óvænta króka framvindunnar.

Kynbundið ofbeldi í anda ítölsku gulmyndarinnar

Myndin er á mörkum sálfræðilegs tryllis og hrollvekju sem braskar með viðkvæm málefni – kynferðisofbeldi, ofbeldi gegn konum og geðræn vandamál. Innblástur er auðvitað fenginn frá bresku bíói sjöunda áratugarins en ekki síður frá ítölsku gulmyndinni (í. Giallo), frægri hryllingsmyndahefð sem flaug hæst á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Skyldleikinn er fagurfræðilegur, dýrð skærra lita og neonljósa, en er líka að finna í umfjöllunarefninu – þar sem gjarnan var braskað með kynlíf og konur í gulmyndum. Í þeim var líka að finna fléttur sem féllu gjarnan í sundur, en sama má segja um Last Night in Soho. Lokahnykkurinn, sem minnir óneitanlega á óvænta úrlausn Hot Fuzz, reynir um of að vera sniðugur og skilur eftir beiskt eftirbragð.

Eins og gulmyndirnar er Last Night in Soho mikið sjónarspil. Lundúnir sjöunda áratugarins eru ljóslifandi, spennandi og gullfallegar. Ljótar tölvubrellur, sem holdgera andlitslaust ofbeldi feðraveldisins, draga myndrænu veisluna þó eilítið niður. Að vanda er popptónlist snilldarlega beitt, eins og í öðrum myndum Wrights. Hér eru falleg og hugljúf söngvalög Sandy Shaw og Cillu Black notuð á írónískan máta þegar ofbeldi og ofsóknaræði taka yfir tjaldið. Að lokum er nauðsynlegt að minnast á aðalleikkonurnar tvær: Thomasin McKenzie og Anya Taylor-Joy, sem eru báðar frábærar. Þá síðarnefndu þekkja margir úr Netflix-sjónvarpsþáttaröðinni Queen‘s Gambit en hún geislar út stjörnukröftum í þessu hlutverki. Í heildina er Last Night in Soho skemmtilegt ferðalag sem ætti að höfða til þeirra sem hafa gaman af hrollvekjum, tímaflakki og/eða sjöunda áratugnum.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Líkamshryllingur, kynlíf og ofbeldi

Kvikmyndir

Hreðjalaust hommagrín og þunn persónusköpun

Kvikmyndir

Svanasöngur á leiði