Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Áföll og tilfinningaleg stéttaskipting

Mynd: Kiljan / RÚV

Áföll og tilfinningaleg stéttaskipting

06.11.2021 - 08:00

Höfundar

Auður Jónsdóttir fjallar um fólk sem stríðir við tilfinningalegt getuleysi í nýútkominni skáldsögu.

Bókin heitir Allir fuglar fljúga í ljósið og segir frá Björtu, konu sem er í stopulli íhlaupavinnu og ráfar um á milli staða í Reykjavík, fylgist með fólki og skráir niður athuganir. Bókin er afar ólík þeirri síðustu sem Auður Jónsdóttir sendi frá sér, 107 Reykjavík sem hún skrifaði ásamt Birnu Önnu Björnsdóttur, farsakennd frásögn um miðaldra konur í Vesturbænum.

„Ég er með tvo persónuleika í mér. Annar er algjör galgopi og hinn er mjög dramatískur og alvarlegur og leitandi í þessum efnum. Þetta er alvarlegi persónuleikinn í þessari bók,“ segir Auður í samtali við Egil Helgason í Kiljunni.

Mynd með færslu

Hér skrifar Auður um fólk sem er á skjön við samfélagið í ýmsum skilningi. „Þetta er fólk sem er svolítið utanveltu í lífinu. Það stríðir við einhvers konar tilfinningalegt getuleysi. Ég er kannski að pæla í öðruvísi stéttaskiptingu sem er tilfinningaleg stéttaskipting og mikið að velta fyrir mér hvernig fólk verður eins og það er. Það verður ekkert eins og það er að ástæðulausu, ekkert verður til úr engu. Ég er mikið að pæla í tilfinningalegu getuleysi út frá æsku og atvikum og hvað við komum út í lífið með misjafnlega góð spil að þessu leyti.“

 

Aðalpersónan, Björt, hefur gengið í gegnum ýmislegt og segir Auður hana ekki þekkja annað en eitruð tilfinningatengsl. „Ég er aðeins að leita orsakanna í gegnum líf hennar hvernig hún æxlast alltaf í þessa átt. Það flókna við að skrifa svona sögu er að ég get ekki skrifað þetta eins og kannski grein eða fræðigrein. Ég get ekki sagt þetta gerðist þarna út af þessu. Ég er að leika með orsakasamhengi. En ég er náttúrulega í kaótískum huga manneskju sem er mjög tætt. Þannig að ég verð svolítið að fylgja eftir hennar kaosi. Kannski svipað og í Stóra skjálfta. Ég er inni í dálitlu óráði en er að reyna að segja lífssöguna.“

Leiguhúsnæðið þar sem Björt býr ásamt öðrum tilfinningalegum ráfurum er miðlægt í bókinni. „Þessi leiguhúsnæði eru út um allan bæ. Þar sem að fólk leigir ódýrt og það er frekar hrörlegt og ólíklegasta fólk safnast saman þar, og eins og ég segi þetta eru tilfinningalegir ráfarar sem hafa safnast saman þarna og eru í einhvers konar búskap og hún er búin að gefast upp á að hafa tilfinningar. Svo hún ráfar mjög mikið og horfir á fólk og er að velta fyrir sér lífi annarra og skrifa það, skrifa litlar sögur um fólkið sem hún sér eða ekki beinlínis sögur, því hún leyfir sér ekki að túlka. Hún skráir það eins og athugandi.“

Persónur bókarinnar eru fátækar í að minnsta kosti tvennum skilningi. Þær hafa ekki mikið á milli handanna og búa að auki við tilfinningalega fátækt. „Þau hafa bara ekki fengið sömu spilin og margir eða tilfinningalega öryggið í æsku. Mér finnst svo skemmtilegt að skoða hvert það leiðir og hvernig orsakasamhengið verður og tengja æskuna við núið.“ Í bókinni tekur Auður upp þráð sem liggur í gegnum nokkrar af bókum hennar, þar sem hún skoðar áföll sem fólk verður fyrir í æsku og birtingarmyndir þess á fullorðinsárum. „Ef við höfum ekki fengið réttu viðbrögðin við áföllum í æsku þá stjórnumst við af viðbrögðum. Það er sagt að ef þú hefur ekki fengið rétt viðbrögð við áfalli sem barn þá ertu í meiri áhættu að lenda í áföllum á fullorðinsárum.“

Rætt var við Auði Jónsdóttur í Kiljunni á RÚV.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Sjósundvinkonur í Vesturbæ sem eru að molna að innan

Bókmenntir

Kostulegar kynlífslýsingar í Vesturbænum

Bókmenntir

„Við slúðrum líka við frændsystkinin“

Bókmenntir

Óraunverulegt að ganga í gegnum skilnað