Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ný mannvirkjaskrá í notkun - auðveldar yfirsýn

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ný mannvirkjaskrá var formlega tekin í notkun í dag. Hún á að auðvelda yfirsýn yfir húsnæðismarkaðinn, bæta áætlanir og gera með því  mögulegt að koma í veg fyrir ýktar sveiflur með verðhækkunum á fasteignamarkaði með tilheyrandi verðbólguáhrifum.

Mannvirkjaskráin var formlega tekin í notkun í dag. Loks er komin nákvæm skráning sem auðveldar yfirsýn á húsnæðismarkaði. Byggingar fá eigið auðkennisnúmer sem leysir margs konar vanda.

Vandamál hafa skapast við niðurrif á byggingum, flutning á þeim, talningu mannvirkja í byggingu og flokkun eftir byggingastigum þar sem byggingar höfðu ekki auðkennisnúmer. Hingað til hafa eingöngu lóðir og fasteignahlutar haft sérstakt númer til auðkenningar. 

Tilkoma þessa nýja gagnagrunns er til mikilla bóta fyrir almenning og yfirvöld. Með tilkomu hans verður hægt að fá upplýsingar um allar íbúðir og húsnæði á landinu á einum stað. Fram til þessa hefur sá háttur verð hafður á í Reykjavíkurborg til dæmis að starfsmaður Samtaka iðnaðarins hefur farið um borg og bý tvisvar á ári og hreinlega talið íbúðir og húsnæði í byggingu. 

 Þorsteinn Arnalds er framkvæmdastjóri stafrænna innviða hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
„Það er vegna þess að þessar upplýsingar hafa verið  dreifðar og ekki safnað saman á einum stað. Nú er komið tæki til að safna þessu saman á einn stað og birta og gera aðgengilegt öllum."

 Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra segir að með þessu megi koma í veg fyrir miklar sveiflur á fasteignamarkaði. Þá hafi ríkisstjórnin lengi rætt um að fá betri yfirsýn yfir þessi mál. Og það sé líka til umræðu í stjórnarmyndunarviðræðum.  Hann var spurður að því hvort ef til vill þurfi sérstakt innviðaráðuneyti.
„Þessi mál  eru hjá of mörgum ráðuneytum og fyrir vikið er yfirsýnin ekki nægilega sterk svo það er eitt af því sem kemur til greina."
 

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra tekur undir mikilvægi þess að mannvirkjaskrá sé loks komin í notkun.

„Hvað er í framkvæmd hvað er í byggingu og það að við séum að stíga skref til þess að geta séð það á tölfræðilegan og stafrænan hátt en ekki með því að rúntað sé um landið og taldir séu húsgrunnar það held ég að verði að teljast gríðarlega mikilvægt fyrir alla stefnumótun stjórnvalda."  

 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV