Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Landsréttur þyngdi dóm yfir Jóhannesi Tryggva

05.11.2021 - 14:33
Mynd með færslu
 Mynd: Thomas Wanhoff - Wikimedia Commons
Landsréttur þyngdi í dag dóm Héraðsdóms Reykjaness yfir Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni og dæmdi hann í sex ára fangelsi. Jóhannes var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn fjórum konum og framundan eru réttarhöld vegna brots gegn fimmtu konunni. Það réttarhald verður opið en ekki lokað eins og venjan er með kynferðisbrot.

Steinbergur Finnbogason, verjandi Jóhannesar, staðfestir dóminn í samtali við fréttastofu. Visir.is greindi fyrst frá.

Dómur Landsréttar hefur ekki verið birtur. Héraðsdómur sagði Jóhannes hafa byggt upp meðferðartraust hjá konunum. Þær hafi verið grandalausar þegar þær lögðust fáklæddar og varnarlausar á nuddbekk hjá honum og hann misnotað það traust með freklegum hætti.

Brot Jóhannesar gegnum tveimur kvennanna þóttu sérlega ósvífinn, annars vegar vegna ungs aldurs annarrar þeirrar og hins vegar vegna langvinns sjúkdóms hinnar. 

Á annan tug kvenna kærðu Jóhannes fyrir kynferðisbrot á sínum tíma en hann var að lokum ákærður fyrir kynferðisbrot gegn fjórum. 

Málaferlum gegn Jóhannesi er hvergi nærri lokið því héraðssaksóknari hefur ákært hann fyrir brot gegn fimmtu konunni.  Hún var ein af ellefu sem kærði hann til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir þremur árum en héraðssaksóknari ákvað að gefa ekki út ákæru á sínum tíma. Þinghaldið í því máli verður opið.

Hún kærði þá ákvörðun til ríkissaksóknara sem lagði fyrir lögreglu að rannsaka málið að nýju. Héraðssaksóknari gaf síðan út ákæru í maí.