Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hafa þurft að vísa fólki frá farsóttahúsum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Vegna plássleysis hefur þurft að vísa fólki frá farsóttahúsum í Reykjavík. Þetta segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður húsanna. Í dag eru 18 herbergi laus í Reykjavík en aðeins eitt á Akureyri. „Við þurfum að vera mjög sparsöm þar,“ segir Gylfi. Og bætir við að það kæmi ekki á óvart ef þessi bylgja yrði sú stærsta hingað til. „Staðan er erfið hjá okkur eins og hjá öðrum sem við þetta starfa.“

„Það kom gífurlega mikill fjöldi gesta í gær. Yfir 30 gestir og við þurftum að neita mjög mörgum líka um pláss þar sem það var ekki til. En það eru til 18 herbergi fyrir daginn í dag, mun minna en þurfti á að halda í gær. Einhver herbergi losna með deginum,“ segir Gylfi. 144 greindust í fyrrdag og segir Heilbrigðisráðherra að fleiri hafi greinst í gær.

Kannski stærsti faraldurinn hingað til

En þarf að bæta við húsum? „Það er það sem við erum að reyna að forðast í lengstu lög. Við vonandi náum að halda sjó yfir helgina, en það er ljóst að álagið er gífurlegt. Það er mikil aukning og það kæmi mér ekki á óvart að þetta væri stærsti faraldurinn hingað til.“ Hann segir erfitt að bæta við hótelum, flest séu komin í rekstur og það sé erfitt að fá fólk í vinnu.

En hvernig forgangsraðið þið herbergjunum? „Við förum yfir aðstæður fólks heima við, og tökum helst ekki til okkar fólk án þess að það séu engin önnur úrræði í boði fyrir fólk. Við þurfum að vera strangari í hvert sinn sem herbergjastaðan er eins og hún er núna. Í húsinu okkar á Akureyri er bara eitt herbergi laust.“