Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aldrei minna fasteignaúrval á höfuðborgarsvæðinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mjög hefur dregið úr framboði íbúða til sölu á öllu höfuðborgarsvæðinu en nú eru um fjögur til fimmhundruð íbúðir til sölu. Formaður Félags fasteignasala segir brýnt að stytta þann tíma sem líður frá upphafi skipulags til byggingarleyfis.

Fréttablaðið greinir frá þessu og hefur eftir Hannesi Steindórssyni formanni Félags fasteignasala að framboðið hafi minnkað sjöfalt og því hafi dregið mjög úr fasteignaviðskiptum. Hann segist ekki muna annað eins.

Bankar spá áframhaldandi hækkun fasteignaverðs, allt að 7 til 10% næsta ár. Ójafnvægi á fasteignamarkaði segir Hannes að þrýsti upp verði og 35 til 40 af hundraði eigna hafi selst á yfirverði undanfarna mánuði.

Nánast engar íbúðir séu falar í Vesturbæ og Seltjarnarnesi og örfáir tugir íbúða í fjölbýli í Kópavogi. Hannes telur þó að sá hópur sem leiti til nágrannabyggða í fasteignaleit sé hlutfallslega ekki stór. 

Hafa beri í huga að annað en íbúðir er inni í heildarfjölda þeirra eigna sem til sölu eru, til dæmis lóðir, hesthús og fleira þess háttar. Því segi opinberar tölur um eignir á skrá aðeins hálfa söguna. 

Hannes telur að þrjú til fjögur ár séu uns jafnvægi næst milli framboðs og eftirspurnar þótt eitthvað sé um fyrirhugaðar húsbyggingar. Hannes telur einu lausnina svo auka megi framboð vera að bæjarfélög stytti þann tíma sem líður frá upphafi skipulags þar til byggingarleyfi fæst.